Ekki hægt að fullyrða að Hornafjarðarfljótið hafi bein áhrif á Öxi

Enn liggur ekki fyrir hvort og hvaða áhrif aukinn kostnaður framkvæmda við Hornafjarðarfljót hefur á fyrirætlanir um lagningu nýs vegar yfir Öxi. Bókfærður kostnaður við fljótið nálgast nú upphaflega kostnaðaráætlun en staðan lagast miðað við uppfærða samgönguáætlun.

Báðar framkvæmdirnar áttu upphaflega að tilheyra hópi svokallaðra samvinnuverkefna, eða PPP-framkvæmda. Sú aðferðafræði gekk út á að einkaaðilar myndu taka að sér stóran hluta verksins, þar með talið fjármögnun, gegn heimildar til tekjuöflunar, svo sem veggjalda.

Áhugi einkaaðila á þessari leið reyndist hins vegar takmarkaður þegar á hólminn var komið. Þess vegna var farið af stað með Hornafjarðafljótið sem hefðbundna framkvæmd, fjármagnaða að fullu af ríkinu. Öxi bíður þar sem ekki hafa fundist aðilar tilbúnir í samstarfið.

Í byrjun sumars bárust fréttir um að framkvæmdir við Hornafjarðarfljót væru komnar fram úr áætlun. Það, ásamt fleiru, mun hafa átt sinn þátt í að ný samgönguáætlun var ekki afgreidd af Alþingi í vor eins og stefnt var að. Í samtali við Austurfrétt í júlí kallaði Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, eftir upplýsingum um stöðu fjárveitinga til vegamála og áhrifa á framkvæmdir, svo sem hver kostnaður væri nákvæmlega við Hornafjarðarfljótið og hvaða áhrif það hefði á Öxi. Austurfrétt hefur síðan óskað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni.

Hvað kostar vegurinn um Hornafjarðarfljót?


Hvað Hornafjarðarfljótið varðar þá var bókfærður kostnaður á það í gær kominn í 4,2 milljarða króna. Í svari Vegagerðarinnar er þó vakin athygli á að kostnaður og framvinda verksins fari ekki alltaf saman því verkhlutar séu misþungir í kostnaði. Verkið sjálft hefur gengið vel og er um það bil hálfnað.

Að ráðast í verkið var samþykkt á Alþingi í júní 2020. Það var gert á grundvelli kostnaðaráætlunar frá því í október 2019 og hún var upp á 4,9 milljarða. Þá var gert ráð fyrir að helmingurinn yrði fjármagnaður með veggjöldum en hinn af ríkinu.

Frá þessum tíma hefur vísitala áætlana hjá Vegagerðinni hækkað um 44%. Miðað við það eitt er uppreiknuð áætlun 7,1 millljaður. Það stemmir við útboð sem fór fram árið 2022. Áætlaður heildarkostnaður nú er hins vegar kominn í 9 milljarða. Það er vegna áframhaldandi verðlagshækkanna og þeirra tilboða sem bárust.

Rúman hálfan milljarð vantar í verkið


Hornafjarðarfljótið er þó enn unnið á grundvelli laga um samgönguverkefni, sem gera ráð fyrir að minnst 50% kostnaðar megi fá til baka af veggjaldi á 30 árum. Í svörum Vegagerðarinnar segir að ekki sé verið að meta verkið út frá heimildum í núgildandi samgönguáætlun frá 2020. Í henni hafi aðeins verið hluti kostnaðar.

Við útboðið hafi verið veitt heimild til að ríkið greiddi inn á verkið í stað þess að fá verktaka til að fjármagna. Sú heimild hefur verið nýtt til að lágmarka fjármögnunarkostnað. Síðan hafi verið ákveðið að fjármagna verkefnið með fjárveitingum af samgönguáætlun 2024-38 sem enn liggur fyrir Alþingi.

Þetta þýðir að í gildandi áætlun er heimild upp á 2,5 milljarða. Í nýrri áætlun er gert ráð fyrir um 5,9 milljörðum. Samanlagt gerir þetta 8,4 milljarða. Skörun er á árinu 2024 upp á 290 milljónir, það er í gildandi áætlun var sú upphæð ætluð í verkið á þessu ári en í nýju áætluninni eru 2,7 milljarðar áætlaðir á þessu ári. Þetta gerir það að verkum að miðað við núverandi kostnaðaráætlun vantar að minnsta kosti 600 milljónir í verkið.

Stefnir í að Öxi verði öll fjármögnuð úr ríkissjóði


Nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á verkefni eins og Öxi er erfitt að segja. Heimild hefur verið til þess að flýta verkinu með fjármögnun annars staðar en úr ríkissjóði en sem fyrr segir voru undirtektir verktaka dræmar.

Samkvæmt gildandi samgönguáætlun ætlaði ríkið að leggja fram helming framkvæmdafjárins, 1,4 milljarða, á árunum 2022-24. Í nýju áætluninni er ekki ætlað fé í framkvæmdina fyrr en árið 2027 en meginþungi Axarvegar, sem þar er talinn kosta 6,6 milljarða króna, er ekki fyrr en á öðru tímabili átælunarinnar árin 2029-33.

Í svari Vegagerðarinnar segir að leita verði nánari upplýsinga hjá innviðaráðuneytinu um hvort enn standi til að nýta heimildina til að taka veggjald á móti kostnaðar við veginn. Aðeins sé hægt að vísa þess sem komi fram í drögum að samgönguáætlun um að verkið verði fjármagnað af samgönguáætlun, það er að segja úr ríkissjóði.

Vanfjármögnun almennt


Í svörum Vegagerðarinnar er einnig bent á að samgönguáætlun fyrir árin 2022 hafi ekki verið fullfjármögnuð af fjárlögum. Árið 2022 hafi vantað 1,5 milljarð upp á en 3,2 árið 2023. Það hafi jafnframt áhrif á önnur verkefni. Samanlagt eru þetta 4,7 milljarðar.

Framkvæmdirnar við Hornafjarðarfljót fela í sér lagningu 19 km langs kafla af þjóðvegi 1 auk 9 km af hliðarvegum. Á þessari leið verða meðal annars byggðar fjórar tvíbreiðar brýr. Þeim fækkar því auk þess sem hann styttir leiðina milli Austurlands og Reykjavíkur um 12 kílómetra. Verkinu á að vera lokið í október 2025.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.