Ekki hægt að grafa upp það sem jarðýtan hefur farið yfir

Formaður Sögufélags Austurlands segir mikilvægt að ganga ekki of hart fram þegar eldri hús eru rifin með að gjöreyða öllum minjum um þau heldur láta til dæmis sökkla standa eftir til minningar fyrir komandi kynslóðir.

Á aðalfundi Sögufélagsins í vor var samþykkt ályktun þar sem harmað er hversu gjarnan sé sléttað „svo kyrfilega yfir rústir húsa að hvergi sjáist merki um staðsetningu“. Þess vegna er hvatt til þess að einhverjar leifar sökkuls fái að standa, eða staðurinn sé merktur.

Austurfrétt greindi í gær frá rannsókn á afdrifum sundlauga sem reistar voru hérlendis á árunum 1900-1950. Af 93 laugum er um 2/3 hlutar þeirra horfinn að nær öllu leyti. Rétt er þó að taka fram að þær fimm laugar sem byggðar voru á Austurlandi standa enn.

Mannvirkin varðveita söguna


„Við hvetjum til þess að veggjabrotin fái að standa, bæði til að hægt sé að minna á að þarna hafi staðið mannvirki en líka því hægt er að nýta þau, svo sem útbúa svæði til að setjast á eða upplýsingaskilti,“ segir Sigurjón Bjarnason, formaður Sögufélagsins.

„Það er ekki alltaf hugsað til enda þegar mannvirkjum er rutt niður. Þau eru hluti af sögu okkar og menningu. Á Seyðisfirði er verið að grafa upp heilt þorp. Það er þó hægt að grafa en það er ekki hægt að finna það sem jarðýtan hefur farið yfir. Við erum að eyðileggja mannvistarleifar þannig að ekki verður hægt að finna þær.

Það eiga eftir að koma kynslóðir á eftir okkur sem vilja vita hvar og hvernig var búið. Með að má út minjarnar týnast staðirnir líkar,“ segir Sigurjón.

Minjar hverfa stöðugt


Hann nefnir dæmi um Kambsel í Álftafirði þar sem búið hafi verið fram á miðjan áttuna áratug síðustu aldar. Um áratug síðar hafi engin ummerki verið lengur um bæinn. „Ég kom þarna við til að skoða og heimreiðin var það eina sem eftir var. Þarna hefði að minnsta kosti þurft að vera minnismerki um bæinn.

Á tímum riðuniðurskurðarins var gengið til verks gagnvart bæði fjárhúsum og aflögðum íbúðarhúsum til að koma fullkomlega í veg fyrir öll smit. Ég tengist Litla-Steinsvaði í Hróarstungu sem var jarðað svo kyrfilega að ekkert sást lengur. Ég fór þangað síðan og kom upp lýsingaskilti um hvar bærinn hefði staðið og hvenær hann hefði farið í eyði.“

Nýlegra dæmi sem Sigurjón tekur er af skemmu sem lengi stóð í Selskógi við Egilsstaði. „Vissulega var löngu tímabært að rífa skemmuna en síðan stóð sökkullinn eftir og í honum var ágæt steypa þannig að innan hans hefði verið hægt að gera eitthvað.

Þetta var áður virðulegra hús, í því var timburgólf og trúlega haldnir dansleikir þar. Sú yfirbygging var rifin en þessi einfalda skemma sett ofan á sökkulinn. En nú hefur hann líka verið rifinn þannig að ekkert sést og trúlega er saga hússins að miklu leyti glötuð.“

Vegagerðin hefur staðið sig vel síðustu ár


Gömul eyðibýli draga oft að sér forvitið ferðafólk, á borð við Sigurjón. Víða hefur minningu þeirra verið haldið vel við, til að mynda með eyðibýlunum í Jökuldalsheiði sem Ferðafélag Fljótsdalshérað hefur leitt. „Veggir gömlu torfhúsanna standa enn víða. Það er skemmtilegra að koma þangað en til staðar þar sem ekki er arða eftir af mannvirkinu.

Ég kom nýverið að Vatnsenda í Héraðsfirði þar sem aðstaðan er til mikillar fyrirmyndar. Þar standa enn metraháir veggir og sett hefur verið upp skilti um síðustu ábúendur og borð og bekkir þar sem hægt er að setjast niður.“

Í ályktuninni er einnig skorað á Vegagerðina að varðveita eldri brýr og vegi, sem tekin hafa verið úr notkun í stað þess að eyða þeim. Í fyrra var ákveðið að gamlar brýr við Gilsá, milli Valla og Skriðdals, fengju að standa þannig þar má sjá samgöngusögu svæðisins í þremur brúum. „Við viljum vernda þessi mannvirki líka og okkur finnst Vegagerðin hafa staðið sig ágætlega í því síðustu ár.“

Við Gilsá standa tvær brýr hlið við hlið og sú þriðja er skammt frá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar