Ekki hætt að moka þótt fjárhagsramminn sé sprunginn
Kostnaður við vetrarþjónustu á Fljótsdalshéraði fór nokkrum milljónum fram úr áætlun á síðustu metrum nýliðins árs. Bæjarstjórinn segir reynt að bregðast við eftir því sem hægt er í þeirri miklu hálkutíð sem verið hefur undanfarnar vikur.„Tíðin hefur verið sérstök. Síðustu daga hefur þetta snúist meira um hálkuvarnir en sjónmokstur. Starfsmenn sveitarfélagsins hafa verið á tánum og stigið inn þar sem hægt hefur verið en þetta er ekki auðvelt við að ráða,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Íbúar, einkum í dreifbýli, hafa gagnrýnt sveitarfélagið fyrir að gera ekki nóg til að hálkuverja vegi. Tvær vikur eru síðan skólabíll fór út af veginum í Skriðdal.
Björn segir að þegar veður og færð séu válynd sé staðan yfirleitt tekin að kvöldi fyrir viðbrögð morguninn eftir. Í verstu tilfellunum, sé bæði hált og hvasst, sé skólahald blásið af.
Þegar haft sé samband vegna hálku fari starfsmenn sveitarfélagsins af stað og dreifi sandi á erfiða bletti. Erfitt sé hins vegar að ráða við tíð eins og nú í janúar þar sem rigni og frysti á víxl því sandurinn festist milli hálkulaga sem eru stöðugt að myndast. „Það er reynt að bregðast við á raunhæfan og skynsamlegan hátt.“
Ákveðin verkaskipting ríkir milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar í hálkuvörnum og segir Björn að þess utan séu samskiptin þar á milli góð. Seint verði þjónustan þó það góð að allir verði sáttir og mikilvægt að vegfarendur fari bæði varlega og séu veru búnir á vel negldum dekkjum. „Það er hált eftir sem áður þótt vegirnir séu sandbornir og það er ekki varanlegt lausn þegar frýst aftur.“
Tíu milljónir fram úr áætlun
Vetrarþjónusta sveitarfélagsins var rædd á fundi bæjarráðs á mánudag. Í bókun ráðsins kemur fram að verulegur kostnaður hafi orðið við þjónustuna á síðustu mánuðum ársins 2019 og farið fram úr kostnaðaráætlunum vegna þessa.
Endanlegar tölur liggja ekki fyrir en áætlaður kostnaður við vetrarþjónustu Fljótsdalshéraðs í fyrra var 32,8 milljónir. Í samanburðar má nefna að kostnaðurinn árið 2018 var 29,8 milljónir en 19,2 árið 2017. „Stundum er þessi liður undir áætlun en að þessu sinni lítur allt út fyrir að hann hafi verið nokkuð umfram áætlun,“ segir Björn og bætir við að mestu hafi munað um snjóþungan desembermánuð.
„Þetta er þess háttar þjónusta að henni er ekki sleppt þótt ramminn sé sprunginn. Eitt árið hafði ekkert af peningnum verið notað þegar komið var fram á haust og samþykkt var að færa hann annað. Við höfum aldrei fengið jafn mikinn snjó í október eða nóvember og þá þannig við gerum það ekki aftur.“
Í fjárhagsáætlun ársins 2019 voru ætlaðar um 22 milljónir í snjómokstur. Miðað við bráðabrigðatölurnar nemur framúrkeyrslan tíu milljónum króna. „Þetta sést í rekstrarniðurstöðu ársins, hún verður eitthvað lakari, en áhrifin eru ekki stórkostleg.“