Ekki kosið 18. apríl
Ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir hafa mælst til þess, í ljósi samkomubanns og óvissuástands vegna útbreiðslu covid-19 veirunnar, að fallið verði frá kosningum í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi sem halda átti 18. apríl. Nýr kjördagur hefur ekki verið ákveðinn en útlit er fyrir að ekki verði kosið fyrr en í haust.Undirbúningsstjórn Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar kom saman í hádeginu í dag til að funda um tilmælin.
Niðurstaða fundarins var tillaga um að fresta kosningunum. Sveitarstjórnir allra sveitarfélaganna fjögurra þurfa að samþykkja tillöguna og varð bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs fyrst til þess á fundi sínum í kvöld. Tillagan þarf síðar staðfestingu samgönguráðherra og Alþingis.
Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, sagði á fundinum í kvöld að málið hefði verið unnið á miklum hraða. Þess vegna er ekki fyllilega ljóst hvert ferlið frestunarinnar verður. Líklegast sé að kosningarnar 18. apríl verði í raun afturkallaðar. Það þýði til að mynda að utankjölfundaratkvæði sem greidd hafa verið þurrkist út.
Sumarkosningar óhentugar
Í kjölfarið verði tekin sjálfstæð ákvörðun um dagsetningu nýrra kosninga. Talsverðar umræður urðu á fundinum um mögulega dagsetningu og var meðal annars spurt hvort ekki hefði verið hægt að gefa út ákveðna dagsetningu.
Þeir fulltrúar sem til svars voru bentu á að í því óvissuástandi sem nú ríkti væri erfitt að gefa nokkuð út um nýja dagsetningu. Rætt var um möguleikann á kosningum í maí eða júní en sú afstaða virtist bæði ríkjandi innan bæjarstjórnar, og hafa verið á fundi undirbúningsstjórnar, að þær væru óhentugar.
„Þessi dagsetning var valin með það í huga að nýja sveitarfélagið væri komið í gang og búið að ganga frá ýmsum málum fyrir sumarfrí. Til dæmis ef gera þyrfti breytingar á störfum starfsmanna eða ráðningarsamningum að starfsmenn færu ekki út í sumarfríið með starfið í óvissu,“ sagði Anna Alexandersdóttir, formaður bæjarráðs.
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri og formaður undirbúningsstjórnarinnar, sagði að undirbúningsstjórnin kæmi saman þegar óvissuástandinu létti og legði þá til nýjan kjördag. „Þetta var rætt fram og aftur í dag en menn voru algjörlega sammála um að á þessari stundu væri óvissan það mikil að ekki væri fært að leggja til nýja dagsetningu.“
„Við viljum ekki fresta þeim til hausts ef við getum haldið þeim fyrr en við viljum heldur ekki setja þær á í júní ef við þurfum síðan að fresta þeim aftur. Við reynum bara kjósa eins fljótt og kostur er,“ sagði Anna. Aðrir bentu á að sumarkosningarnar væru óhentugar þar sem fólk væri að heiman í sumarleyfum og það gæti dregið úr kjörsókn. „Mér hugnast ekki júníkosningar. Ég get séð að þetta verði síðsumars eða í haust en það er ekki neins eins að ákveða það,“ sagði Björn.
Ekki stórmál í stóra samhenginu
Samkvæmt lögum ber að boða kosningar með minnst fimm vikna fyrirvara. Anna skýrði frá því að á fundi undirbúningsstjórnarinnar hefði skemmri frestur verið ræddur en hann talinn illmögulegur. „Ég held að framboðin þurfi þessar vikur til að keyra aftur á fullt og þær verða fljótar að líða. Utankjörfundaratkvæðagreiðslan þarf líka að fara aftur í gang.“
Bæjarfulltrúar úr öllum framboðum lýstu yfir vonbrigðum með að þessa ákvörðun þyrfti að taka en sýndu henni skilningi. Ekki væri hægt að hundsa tilmæli Almannavarna með að steðja fjölda fólks á sama stað þegar samkomubann sé í gildi. Ekki væri heldur ábyrgt að beina fólki á skrifstofur mikilvægra stofnana eins og sýslumanns, sem heldur utan um utankjörfundaratkvæðagreiðsluna. Þá hefðu framboðsfundir og þar með kynningar frambjóðenda verið nær ómögulegar við þær aðstæður sem nú eru.
Gunnhildur Ingvarsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði frestun kosninganna ekki stóratriði í víðara samhengi baráttunnar gegn útbreiðslu veirunnar sem á þessari stundu væri brýnasta mál sveitarfélaganna.
Seinkar sameiningunni
Björg Björnsdóttir, bæjarfulltrúi Héraðslistans, spurði um áhrif frestunarinnar á vinnu við samrunann, einkum fjármál sveitarfélaganna. Björn svaraði að sveitarfélögin myndu áfram starfa eftir sínum fjárhagsáætlun og hafa náið samráð, eins og þau hafi gert síðan sameiningin var samþykkt í íbúakosningu í lok október.
Hann sagði að tíminn yrði nýttur í áframhaldandi undirbúningsvinnu bæði í stjórnsýslu og fjármálum. Ekki verði þó hægt að samræma bókhaldskerfi fyrr en eftir að sameiningin hefur formlega tekið gildi í kjölfar kosninganna. Þá verði fleiri mánuðir undir í fjárhagsuppgjöri sem þurfi að fara fram en það eigi ekki samt ekki að verða flóknara.