Ekki mikill snjór á fjallvegunum
Allar helstu leiðir á Austurlandi eru nú opnar eftir að hafa verið lokaðar vegna veðurs í gær. Almennt hefur gengið vel að ryðja vegina enda ekki mikill snjór á þeim.Mokstursbíll og snjóblásari lögðu af stað yfir Fjarðarheiði snemma í morgun og náðu að opna leiðina yfir klukkan sjö í morgun. „Það voru 3-4 skaflar á heiðinni,“ segir Davíð Þór Sigfússon, hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.
Leiðin yfir Fagradal var opnuð klukkan átta. Davíð segir lítinn snjó hafa verið á dalnum sjálfum, aðallega í Græfunum.
Síðan hafa leiðirnar opnast ein af annarri, Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarð. Enn er þungfært efst á Efra-Dal á Jökuldal og í austurbyggðinni en unnið er að mokstri. Að öðru leyti eru leiðir á láglendi færar.
Áfram verður unnið að því að hreinsa vegina í dag. Enn fellur blautur snjór til jarðar en spáð er miklu frosti og því mikilvægt að hreinsa sem mest til að lágmarka hálku í frostinu.
Enn er éljagangur á fjallvegum og beinir Vegagerðin því þeim tilmælum til ökumanna að fara með gát.