Ekki nóg að kanna lífeyrisréttindin korteri fyrir töku lífeyris

sigurdur_holm_freysson_web.jpg
Stjórn Stapa lífeyrissjóðs boðaði til almenns sjóðsfélagafundar á Reyðarfirði í gærkvöd. Kvöldið áður var sambærilegur fundur á Höfn í Hornafirði og í kvöld verður svo  fundað á Vopnafirði. Tilefni fundanna er nýleg skýrsla um úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa er ánægður með fundina fyrir austan.

„Þessi skýrsla dregur ekki upp raunsanna mynd af því hvernig lífeyrissjóðirnir komu út úr hruninu, of mikil áhersla er lögð á hvað fór aflaga. Stapi varð vissulega fyrir höggi í kjölfar bankahrunsins eins og aðrir sambærilegir sjóðir. Það er hins vegar ekki svo að sjóðirnir hafi þurrkast upp. Því fer víðs fjarri.“

Lífeyrir hefur hækkað um 30 % frá hruni 

Kári segir að ávöxtun Stapa hafi ekki verið nógu góð til að standa að fullu undir lífeyrisskuldbindingum, sem eru verðtryggðar. Auk þess sé lífeyrissjóðum gert að ávaxta fjármuni sína um 3,5 % á ári. 

„ Ég bendi þó á að lífeyfir hefur hækkað um 28 % frá hruni, sem er meiri hækkun en hjá þorra launþega. Staða Stapa er þokkalega sterk og við erum langt komin með að jafna okkur eftir hrunið. Hvað framtíðin ber í skauti sér er hins vegar erfitt að segja, reyndar ómögulegt.“

Aukin umræða um lífeyrissjóði

Sigurður Hólm Freysson varaformaður AFLs starfsgreinafélags var á fundinum á Reyðarfirði í gærkvöld. Hann minnir á að lífeyrissjóður sé ekkert annað en eftirlaunasparnaður fólksins í viðkomandi sjóði. 

„Já, ég verð var við aukinn áhuga fólks á lífeyrissjóðunum, sérstaklega í kjölfar bankahrunsins, enda töpuðu þeir flestir verulegum fjármunum. Þessi nýlega skýrsla hefur vakið fólk til umhugsunar, ég er sammála Kára Arnóri um að ekki sé dregin upp rétt mynd af stöðu mála.“

Nauðsynlegt að fylgjast með

„Það er ekki nóg að athuga sín réttindi korteri fyrir lífeyristöku, fólk þarf nauðsynlega að kanna málið reglulega. Þessi fundur var mjög góður og fræðandi,“ segir Sigurður Hólm Freysson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.