Ekki þykir ráð að fá gesti úr borginni
Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur Austfirðinga til að íhuga vandlega hvort þörf sé á ferðum til og frá höfuðborgarsvæðinu, sem og fá til sín gesti þaðan.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar í dag.
Bæði almannavarnadeild Ríkislögreglustjórna og sóttvarnalæknir hafa varað við ferðalögum til og frá höfuðborgarsvæðinu nema brýna nauðsyn beri til. Í tilkynningunni segir að dæmin sýni að dæmin sanni að til mikils sé að vinna.
Verið er að herða sóttvarnaráðstafanir fyrir höfuðborgarsvæðið en þótt ástandið sé gott eystra bendir aðgerðastjórnin á að íbúar Austurlands beri líka ábyrgð, meðal annars með viðburða sem þeir hafa tekið þátt í að skipuleggja og kalla á ferðalög til eða frá höfuðborgarsvæðinu.
Aðgerðastjórnin ítrekar mikilvægi þess að ýtrustu sóttvarnir séu viðhafðar ef farið er til höfuðborgarsvæðisins, gæta þurfi að fjarlægðarreglum sem þar eru tveir metrar, nota grímur, þvo hendur og nota spritt.
Aðgerðastjórnin vekur ennfremur athygli á að sóttvarnalæknir hefur hvatt íbúa af höfuðborgarsvæðinu til að halda sig sem mest heimavið meðan Covid-stormurinn geisar. Ekki þykir ráð að fá gesti þaðan eins og sakir standa, nema að vel yfirlögðu ráði og með öllum þeim varúðarráðstöfunum sem nefndar hafa verið.
Samkvæmt nýjustu tölum á Covid.is er einn einstaklingur með virkt smit í fjórðungnum en sjö eru í sóttkví. „Ástandið er gott hér í fjórðungnum og verður vonandi áfram. Fylgjum reglum, tölum saman og aðstoðum hvert annað við að komast heil í mark.“