Eldur í Lárunni á Seyðisfirði: Bæjarbúar miður sín yfir brunanum: Myndir
Eldur kom upp í veitingastaðnum Kaffi Láru á Seyðisfirði um klukkan átta leytið í kvöld. Ekki er vitað um eldsupptök en ljóst er að skemmdir eru miklar. Slökkvilið er á staðnum að reyna að ná tökum á eldinum. Bæjarbúar eru margir hverjir samankomnir þar og horfa með hryllingi upp á brunann.
"Allir bæjarbúarnir komnir saman fyrir utan og eru miður sín. Þetta er náttúrulega hjarta bæjarins, mikil væntumþyggja í garð hússins," segir ljósmyndarinn og Seyðfirðingurinn Helgi Ómarsson. Hann hefur eins og aðrir bæjarbúar staðið í miðbænum og fylgst með slökkvistarfinu í kvöld.
Um klukkustund eftir að slökkviliðið var kallað út virðist það vera að ná tökum á eldinum. Að sögn sjónarvotta hefur lítill eldur sést en mikinn reyk leggi frá húsinu. Á tímabili hafi eldurinn virst vera að breiðast út í efri hluta hússins en slökkviliðið náð að hægja á þeirri framrás.
Myndir: Einar Bragi Bragason