Eðlilegt að stór hluti starfsemi AST verði staðsettur í Fjarðabyggð
Bæjarfulltrúar Fjarðabyggðar vilja að stór hluti starfsemi nýrrar stoðstofnunar á Austurlandi verði staðsettur í sveitarfélaginu. Þeir telja eðlilegt að stærsta sveitarfélagið á svæðinu fái eitthvað í sinn hlut.
„Eðlilegt hlutfall af störfum hjá stofnuninni á að vera staðsett í Fjarðabyggð. Við erum langstærsta sveitarfélagið á þessu svæði,“ sagði Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans á bæjarstjórnarfundi fyrir skemmstu.
Undir þetta tók Sævar Guðjónsson frá Sjálfstæðisflokki. „Þetta er ekki sameinað svæði og á meðan svo er verður hver að hugsa um sitt og verja sitt. Stór hluti starfseminnar á að vera í Fjarðabyggð. Það er allt annað aðgengi að þessu fólki eftir því hvar það er staðsett.“
Bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson hvatti menn þó til að fara varlega í að togast á um störfin. „Þetta á ekki að snúast um fjölda starfa,“ sagði hann. Hann ráðlagði mönnum að vera rólegir, vinnan tæki sinn tíma en mikilvægt væri að til hennar yrði vandað.