Ellefu komin í framboð hjá Sjálfstæðisflokknum
Ellefu einstaklingar hafa tilkynnt um framboð í fimm efstu sætin á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Raðað verður sætin á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins á morgun.Talsverð spenna er fyrir þinginu eftir að Jens Garðar Helgason bauð sig fram í oddvitasætið gegn Njáli Trausta Friðbertssyni, núverandi þingmanni.
Í annað sætið hafa þær Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður, Berglind Harpa Svavarsdóttir, varaþingmaður og Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður, boðið sig fram. Flokkurinn hefur sem stendur tvo þingmenn í kjördæminu.
Þingið hefst á hádegi og á því eiga allt að 260 manns atkvæðisrétt, aðal- og varamenn í kjördæmisráði. Byrjað verður að kjósa um fyrsta sætið og er von á úrslitum úr þeirri kosningu undir klukkan 14, ef allt gengur að óskum.
Frambjóðandi sem ekki hlýtur brautargengi í það sæti sem hann hefur boðið sig fram í getur boðið sig fram í næsta sæti á eftir og svo framvegis. Kjörnefnd gerir síðan tillögu um önnur sæti listans og er gert ráð fyrir að bera listann í heild upp til samþykktar áður en þinginu verður slitið.
Hægt er að bjóða sig fram á fundinum sjálfum þannig enn getur fjölgað í hópi frambjóðenda.
Frambjóðendur í 1. sæti:
Jens Garðar Helgason, 47 ára, Eskifirði.
Njáll Trausti Friðbertsson, 54 ára, Akureyri.
Frambjóðendur í 2. sæti:
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, 31 ára, Akureyri.
Berglind Harpa Svavarsdóttir, 48 ára, Egilsstöðum.
Valgerður Gunnarsdóttir, 69, Norðurþingi.
Frambjóðendur í 3. sæti:
Almar Marinósson, 43 ára, Þórshöfn.
Jón Þór Kristjánsson, 33 ára, Akureyri.
Ketill Sigurður Jóelsson, 38 ára, Akureyri.
Kristinn Karl Brynjarsson, 58 ára, Reyðarfirði.
Frambjóðendur í önnur sæti
Telma Ósk Þórhallsdóttir, 19 ára, Akureyri (í 3.- 5. sætið).
Þorsteinn Kristjánsson, 27 ára, Akureyri (í 4. sætið).