Ellefu mánaða gamalt barn smitað af mislingum

Embætti landlæknis hefur staðfest að ellefu mánaða gamalt barn hafi smitast af mislinum. Talið er að barnið hafi smitast af því að vera í sama flugi og einstaklingur með mislinga.

Flugið var með Air Iceland Connect frá Reykjavík til Egilsstaða þann 15. febrúar síðastliðinn en maðurinn hafði daginn áður komið til landsins frá Filippseyjum í gegnum London með flugi Icelandair. Farþegum í flugunum tveimur hefur verið gert viðvart um smithættu.

Barnið var lagt inn á Barnaspítala Hringsins á föstudag og heilsast vel eftir atvikum, að því er fram kemur í tilkynningu. Líkur á frekara smiti frá barninu er ólíklegt en einstaklingar í nánasta umhverfi barnsins eru bólusettir gegn mislingum.

Á þessari stundu er ekki vitað um fleiri smitaða einstaklinga en mögulega má búast við smiti fram til 7. mars en þá eru 3 vikur liðnar frá því að einstaklingurinn með smitið var á ferðalagi.

Í tilkynningu embættisins er minnt á að mislingar séu með mest smitandi sjúkdómum sem þekkjast. Engin meðferð er til við sjúkdómnum og eina fyrirbyggjandi meðferðin felst í bólusetningu sem veitir meira en 95% vörn.

Bólusetning gegn mislingum er við 18 mánaða og 12 ára aldur. Hægt er að bólusetja börn frá 6 mánaða aldri en vörn bólusetningarinnar er óviss á aldrinum 6−12 mánaða. Litlar líkur eru á vernd ef bólusett er fyrir 6 mánaða aldur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.