Embætti lögreglustjóra verður auglýst

Engin áform eru á þessari stundu um að sameina embætti lögreglustjórans á Austurlandi öðru embætti. Dómsmálaráðherra hefur boðað að farið verði yfir skipulag lögregluembætta á landsvísu.

Fyrir liggur að Inger. L Jónsdóttir, núverandi lögreglustjóri, mun láta af embætti sökum aldurs snemma á næsta ári. Samkvæmt svari frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, verður embættið auglýst.

„Engar tillögur eru uppi um sameiningar eins og staðan er núna,“ segir í svarinu.

Áslaug Arna hélt blaðamannafund á þriðjudag þar sem hún tilkynnti um breytingar á skipan lögreglunnar í landinu. Um áramót tekur til starfa lögregluráð sem verður formlegur samráðsvettvangur lögreglustjóra á landsvísu sem hittist einu sinni í mánuði.

Við sama tilefni var skýrt frá því að innan ráðuneytisins væri í skoðun frekari breytingar á lögreglunni, svo sem sameining embætta og tilfærslur á verkefnum. Kvittur hefur verið á kreiki eystra í nokkurn tíma um að embætti lögreglustjórans á Austurlandi kynni að vera sameinað öðrum innan skamms.

Á blaðamannafundinum sagði Áslaug Arna að sameiningar væru langtímaverkefni. Við þær þyrfti víðtækt samráð og nánari skoðun. Þá yrði skoðað að færa verkefni sem nú er sinnt miðlægt til einstakra embætta.

Þá eru breytingar í héraðsdómi Austurlands þar sem Ólafur Ólafsson dómsstjóri er farinn í hálfs árs leyfi. Í desember mun Halldór Björnsson, dómari frá héraðsdómstól Norðurlands eystra, sinna venjubundnum dómþingum en í upphafi næsta árs kemur Arngrímur Ísberg, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur og settur dómari við Landsrétt austur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.