Endurbætt hjúkrunarrými í Neskaupstað á áætlun

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að bæta endurbættum hjúkrunarrýmum á hjúkrunardeild umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað við framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2024.

Þetta kemur fram í samantekt um stöðu núgildandi framkvæmdaáætlunar til ársins 2023 og framhald hennar.

Neskaupstaður er einn fjögurra staða sem bætast við núverandi áætlun og sá eini á Austurlandi. Þar verður aðstaðan bætt á hjúkrunarrýmunum sem eru tíu talsins. Framkvæmdir eru á áætlun árið 2023.

Stefna heilbrigðisyfirvalda hefur verið að fólk búi í eigin húsnæði eins lengi og hægt er. Þegar það er ekki hægt lengur taka hjúkrunarrými við. Þau eru 270 á landinu í dag. Á áætluninni til 2023 voru alls 588 rými, þar af 368 ný og 270 endurbætt.

Í samantektinni er einnig farið yfir fjölbýli á hjúkrunarheimilum en unnið hefur verið að því fækka þeim en fjölga einstaklingsrýmum. Hlutfal einbýlis var í fyrra komið upp í 86%.

Fjölbýlisrými eru á fjórum hjúkrunarheimilum á Austurlandi. Á Vopnafirði eru þau 4 rými af 10, á Seyðisfirði 2 af 18, á Fáskrúðsfirði 12 af 18 og 6 af 10 í Neskaupstað. Fram kemur að staðan á Fáskrúðsfirði sé í skoðun og aðkallandi í Neskaupstað, enda það komið á framkvæmdaáætlun, en engin erindi hafi borist vegna Seyðisfjarðar eða Vopnafjarðar.

Þá kemur fram í yfirferðinni að meðalbið Austfirðinga eftir hjúkrunarrými séu 91 dag, sem sé með því lægsta sem gerist á landinu.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var ranglega hermt að hjúkrunarrýmin væru á Breiðabliki, sem hýsir íbúðir aldraðra. Beðist er velvirðingar á því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar