Engar greiðslur til öldungaráðs Múlaþings því ekki um fastanefnd að ræða
Öldungaráð Múlaþings er ekki fastanefnd á vegum sveitarfélagsins heldur um samráðsvettvang að ræða og því er seta í ráðinu ólaunuð.
Þannig svaraði meirihluti sveitarstjórnar Múlaþings bókun öldungaráðs sveitarfélagsins frá því snemma mánaðarins þess efnis að leiðrétt verði sú mismunun að ekki sé greitt fyrir fundarsetu í öldungaráði eins og venjan er í öðrum ráðum Múlaþings.
Skýringuna er að leita í erindisbréfi öldungaráðs þar sem kveðið er á um að ráðið sé ekki fastanefnd á vegum sveitarfélagsins heldur samráðsvettvangur sem skipaður er á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í öldungaráði sitja sex eldri borgarar sem geta haft áhrif á ýmsa hluti og ákvarðanir innan sveitarfélagsins er varða þann aldurshóp og á köflum beðnir álits á öðrum málum eins og samgöngum og deiliskipulagsmálum. Ráðið hittist að jafnaði tvisvar til þrisvar sinnum árlega.
Til samanburðar fá nefndarmenn í ungmennaráði Múlaþings greiðslur fyrir líkt og aðrir en það ráð hittist mun oftar eða allt að tíu sinnum á ári.