Engar umsóknir þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir iðnaðarmönnum
Fyrirtækið Launafl á Reyðarfirði hefur undanfarna mánuði auglýst ítrekað um allt land eftir iðnaðarmönnum en viðbrögðin hafa verið lítil sem engin. Þetta leiðir til þess að erfiðra verður að sinna þeirri þjónustu sem þarf. Framkvæmdastjórinn segir að auka þurfi hvata í grunnskólum til að nemendur velji síðar iðnnám.„Okkur vantar pípulagningarmann, smiði, lærða vélvirkja og blikksmið. Við erum þokkalega sett á vélverkstæðinu en gætum gætt við okkur lærðu fólki þar. Rafvirkjadeildin er eiginlega sú eina sem er í góðu lagi.
Við höfum auglýst þrisvar í Fréttablaðinu, Dagskránni, Austurglugganum og svo Bændablaðinu en þær auglýsingar hafa eiginlega hvorki skilað einu né neinu,“ segir Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Launafls.
Magnús segir rót vandans vera að of fáir fari í iðnnám hérlendis. „Það er mjög erfitt að fá lærða iðnaðarmenn til starfa. Það eru alltof fáir héðan af Austurlandi sem fara í iðnnám.“
Hjá Launafli starfa í dag 95 starfsmenn. Fyrirtækið hefur tekið við iðnnemum á samning frá árinu 2009 og hafa 40 þeirra nema lokið námi. Um þriðjungur þeirra starfar enn á svæðinu en tveir þriðju eru komnir annað.
„Þeir fara í önnur störf eða skipta um umhverfi. Þeir sem læra vélstjórn fara margir á sjóinn. Nokkur hópur er farinn suður. Við finnum fyrir því að þegar meira verður að gera á öðrum svæðum er erfiðra að fá fólk út á land.“
Ekki allt leyst með tækjum
Magnús telur almennt þörf á að efla iðnnám í landinu. „Það þarf að taka það upp við menntamálaráðuneytið að koma meiru verklegu námi inn í list- og verkgreinar í grunnskóla til að vekja áhuga ungs fólks.“
Þegar starfsmenn skortir dregst að sinna þeim verkefnum. „Afleiðingar þess að við fáum ekki iðnaðarmenn er að við getum ekki sinnt öllum þeim sem vilja skipta við okkur. Það er ansi stór flóra sem við sinnum.
Mögulega eru til leiðir, til dæmis meiri sérhæfing með vélum. Fyrirtækin syðra eru tæknivæddari en markaðurinn þar er stærri. Við leysum heldur allt með vélunum, við erum mikið í þjónustu sem í þarf fólk en ekki tæki.
Við höfum fengið til okkar mjög gott erlent starfsfólk en þar er slæmt ef menn þurfa að fá starfsmannaleigurnar inn í kerfið. Það er líka best fyrir samfélagið að fá hingað starfsmenn sem taka fjölskylduna með sér.“