Engin ákvörðun tekin um lokun þýðingarmiðstöðvar

Utanríkisráðuneytið hefur ekki tekið neina ákvörðun um framtíð þýðingarmiðstöðvar ráðuneytisins sem starfrækt hefur verið á Seyðisfirði undanfarin tíu ár. Aðeins einn stafsmaður verður þar eftir innan tíðar vegna aðhaldskröfu innan ráðneytisins.

Byggðaráð Múlaþings samþykkti á fundi sínum í síðustu viku bókun þar sem segir að fyrir liggi upplýsingar um mögulega lokun þýðingarmiðstöðvanna á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Lýst er furðu yfir þessum aðgerðum á þeirri forsendu að aðhalds sé þörf í málaflokknum og stjórnvöld hvött til að endurskoða áformin með hliðsjón af áherslu á störf án staðsetningar.

Austurfrétt hafði óskað eftir upplýsingum um þýðingarmiðstöðina áður en bókunin var lögð fram og sömuleiðis ítarlegri útskýringum eftir hana.

Í svari ráðuneytisins segir að í kjölfar ábendingar Austurfréttar hafi sveitarfélagið verið upplýst um að engin ákvörðun liggi fyrir um lokum starfsstöðvanna.

Hins vegar sé staðan sú að öðrum að þeim tveimur þýðendum, sem unnið hafa á Seyðisfirði, hefur verið sagt upp vegna aðhaldskröfu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en henni er beint að þýðingarmiðstöðinni.

Starfsstöðin var opnuð í lok ágúst 2014. Þrír starfsmenn voru þar í byrjun. Enginn þeirra er enn starfandi. Þar til árið 2021 voru þar þó þrjú stöðugildi en það ár óskaði einn starfsmaður eftir flutningi til Reykjavíkur. Staða var auglýst á Seyðisfirði í kjölfarið en umsóknir bárust ekki. Síðan hafa starfsmennirnir verið tveir.

Þýðingarmiðstöðin var einnig meðal þeirra sem urðu fyrir tjóni í skriðuföllunum 2020. Skrifstofa hennar var í svokallaðri Silfurhöll sem eyðilagðist. Fyrst eftir skriðurnar var henni komið fyrir á Post Hostel en fluttist vorið 2023 í húsnæði Austfars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar