Engin loðna þýðir tjón fyrir fólk, fyrirtæki og samfélagið allt
Annað árið í röð gefa fyrstu mælingar Hafrannsóknarstofnunar til kynna að loðnustofninn kringum landið sé ekki nógu sterkur til að leyfðar verði nokkrar veiðar þennan veturinn. Tjónið af slíku yrði mikið að sögn framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar.
Ráðgjöf Hafró fyrir komandi vetur í loðnuveiði var birt í síðustu viku og ráðgjöfin á þessu stigi er að engar loðnuveiðar fari fram að svo stöddu. Það gæti þó breyst, eins og síðasta vetur, eftir áramótin þegar aftur verða gerðar mælingar og reynist stofninn í betra ásigkomulagi á þeim tíma gæti fengist grænt ljós að einhverjar veiðar í kjölfarið.
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hefur ekki gefið vonina upp á bátinn að svo stöddu.
„Ég met stöðuna ekkert öðruvísi en áður, það fylgir óvissa loðnuveiðum á þessum tíma eins og oft hefur verið. Við reiknum með að eiga nú samtal við Hafró og skipuleggja næstu skref í loðnuleitinni. [Óumdeilt er þó að] ef engin er loðnan þá er það bara tjón fyrir fólkið, fyrirtækin og samfélögin sem eiga mikið undir loðnu eins og hér í Fjarðabyggð.“
Við upphaflega ákvörðun sína síðasta haust um engar loðnuveiðar síðasta vetur mældist heildarmagn loðnu tæp 610 þúsund tonn en þar af stærð veiðistofnsins um 307 þúsund tonn. Mælingarnar nú eru töluvert lakari en heildarmagnið þá reyndist 697 þúsund tonn og þar af veiðistofn 325 þúsund tonn.
Hafrannsóknarstofnunin gerir ráð fyrir frekari mælingum strax í byrjun næsta árs.