Engir ísbirnir fundust við Laugarfell

Engin ummerki um ísbirni fundust í nágrenni Laugarfells á Fljótsdalsheiði. Tilkynnt var um að mögulega væru tveir slíkir á ferðinni þar í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi barst tilkynning um klukkan fjögur í dag frá tveimur erlendum ferðamönnum, sem voru saman í bíl, um tvo ísbirni skammt frá Laugarfelli. Nánar tiltekið áttu dýrin hafa verið nærri Kirkjufossi í Jökulsá í Fljótsdal.

Ferðamennirnir höfðu horfið óttaslegnir af vettvangi en gátu gefið upplýsingar um staðsetningu sína er þeir töldu sig verða ísbjarnanna varir, þá í rétt um þrjú hundruð metra fjarlægð.  

Í Laugarfelli er rekin ferðaþjónusta á sumrin. Henni var lokað um síðustu mánaðamót. Snæfellsskáli var sömuleiðis yfirgefinn um miðjan september. Fyrstu viðbrögð lögreglu var að kanna hvort fólk væri á svæðinu en svo reyndist ekki vera.

Lögreglumenn fóru síðan upp á heiði til að leita fótspora, bæði út frá þekktri staðsetningu tilkynnenda og hvar þeir töldu sig hafa séð dýrin. Ekki fundust önnur fótspor en eftir ferðamennina. Eins voru myndir úr vefmyndavélum Landsvirkjunar á Fljótsdalsheiði skoðaðar. Ekkert sást á þeim.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, búin hitamyndavél og nætursjónauka, kom á svæðið upp úr klukkan sjö í kvöld. Hún sá heldur ekki neitt. Í kjölfar þess var leitinni hætt eða myrkur komið á svæðið. Ef veður leyfir verður farin önnur ferð með þyrlunni yfir svæðið til öryggis.

Á vef Náttúrufræðistofnunar má sjá kort af því hvar á landinu hvítabirnir hafa sést. Af því má ráða að birnir hafa komist langt inn á Austurland í fyrndinni. Lögreglan hvetur því fólk sem á ferð um svæðið næstu daga til að hafa varann á.

Svæðið við Laugarfell hefur þó í gegnum tíðina verið þekktara fyrir sauðfé. Eins eru margvíslegar kletta- og kynjamyndir eru á leitarsvæðinu og snjór yfir sem getur villt óvönum sýn. Talið er að það hafi gerst að þessu sinni, að því er segir í tilkynningu lögreglu.


 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.