Enginn lengur í einangrun á Austurlandi vegna COVID
Austurland er sá fjórðungur landsins sem greinilega hefur gengið best í að halda nýjasta COVID faraldrinum í skefjum. Samkvæmt tilkynningu frá aðgerðarstjórn almannavarna á Austurlandi í dag er enginn einstaklingur lengur í einangrun á Austurlandi.
Á vefsíðu lögreglunnar segir hinsvegar að við þær aðstæður sem skapast hafa í samfélaginu er aðgerðastjórn meðvituð um að framhalds- og háskólanemar sem stunda nám sitt á höfuðborgarsvæðinu hugi nú sumir að heimferð á Austurland.
"Sé það mat þeirra og fjölskyldna hér fyrir austan að ekki sé hægt að fresta þeim flutningi enn um sinn, þá brýnir aðgerðastjórn fyrir bæði nemunum og aðstandendum þeirra mikilvægi ítrustu sóttvarna og aðgátar í umgengni. Sérstaklega á það við fyrstu vikuna eftir heimkomu en áréttar líka að mögulegur smittími er allt að 14 dagar frá smiti." segir á vefsíðunni.
"Munum svo að njóta þess að vera til, stundum útiveru og gleðjumst með okkar nánustu".