Enn allir möguleikar á borðinu með kyndingarleiðir fyrir Seyðfirðinga
Stjórn og starfsfólk HEF-veitna liggur enn undir feldi varðandi vænlegustu kyndingarleiðirnar fyrir Seyðfirðinga til framtíðar. Rarik hefur tilkynnt að það hyggist hætta rekstri fjarvarmaveitu sinnar og hefur boðið Múlaþingi að taka við kerfinu. HEF veitur, fyrir hönd Múlaþings, hafa skoðað framtíðarlausnir kyndingar á staðnum.
Málið er allt flókið og umfangsmikið að sögn Aðalsteins Þórhallssonar, framkvæmdastjóra HEF-veitna, og þar miklir hagsmunir í húfi.
Rekstur fjarvarmaveitu með hefðbundnu sniði hefur verið skoðaður í kjölinn en jafnframt skoðað hvort fýsilegt sé að nýta jarðvatn til orkuvinnslu í varmadælu en til þess að ganga úr skugga um það þarf boranir í Seyðisfirði. Einnig hafa verið grandskoðaðar hugmyndir um að færa kyndingu inn á hvert og eitt heimili með varmadælum eða hitatúbum.
Ljóst þykir orðið að rekstur fjarvarmaveitna á borð við þá sem séð hefur íbúum Seyðisfjarðar fyrir heitu vatni gengur illa upp meðan ekki er aðgangur að öruggri orku og það á viðráðanlegu verði árið um kring. Fjarvarmaveita Seyðisfjarðar allnokkrum sinnum þurft að keyra á olíu síðustu árin vegna raforkuskerðinga og reksturinn almennt verið svo þungur að RARIK hefur um tíu ára skeið íhugað að hætta honum.
Engin ein lausn
HEF-veitur tóku í síðasta mánuði þátt í fundi með Orkustofnun og fulltrúum veitna um stöðu og lausnir fjarkyntra veitna. Á þeim fundi var staða þeirra rædd í stóru samhengi en engin ein lausn er fýsileg þar sem staða þeirra og þarfir eru afar ólíkar. Upp úr stendur hinn mikli kostnaður við trygga raforku allan ársins hring.
Tilkynning kom í kjölfar fundarins að Orkubú Vestfjarða hefði náð samningum við Landsvirkjun um kaup á forgangsorku með mestu skerðingu árlega um fjóra sólarhringa. Óskaði stjórn HEF-veitna þeim til hamingju með þann áfanga en aðspurður um hvort sambærilegur samningur sé hugsanlegur varðandi fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar segir Aðalsteinn öllum möguleikum haldið opnum. HEF-veitur séu þó ekki komin á þann stað að farið verði að semja um orkukaup.
Múlaþing og HEF-veitu gera áfram ráð fyrir að kynna bestu lausnirnar fyrir íbúum Seyðisfjarðar á íbúafundi innan tíðar.