Enn ekki ljóst hvenær lokið verður við snjóflóðavarnir á Seyðisfirði
Ekki hefur verið ákveðið hvenær lokið verði við snjóflóðavarnir í norðanverðum Seyðisfirði, undir fjallinu Bjólfi. Fjölbýlishús við Gilsbakka og atvinnuhúsnæði við Fjarðargötu og Ránargötu eru þar á skilgreindu hættusvæði C. Í sunnanverðum firðinum stendur til að ráðast í frekari rannsóknir á hættu á aurflóðum í ljósi endurskoðaðs hættumats.Eitt mannskæðasta snjóflóð sem heimildir eru um á Íslandi féll á Seyðisfjörð þann 18. febrúar árið 1885. Alls lentu 90 manns í því flóði, 15 hús sópuðust á haf út og 24 fórust.
Árið 2005 var lokið við byggingu snjóflóðavarnagarða í Bjólfinum, ofan við Brún í ríflega 600 metra hæð. Garðarnir eiga að koma í veg fyrir að flóð úr Bjólfinum steypist fram af Brúninni og hleypi af stað snjó úr hlíðinni fyrir neðan sem fari niður á jafnsléttu. Samkvæmt samantekt frá Veðurstofu Íslands hefur garðurinn gripið nokkuð flóð, þeirra einna stærst í apríl 2006 en spýja úr því slettist yfir garðinn.
Í endurskoðuðu hættumati frá árinu 2011, þar sem áhrif garðanna eru metin, segir að í því flóði hafi sannast að garðurinn virkaði til að draga úr afli og massa stórra snjóflóða. Í matinu segir þó ennfremur að garðarnir dugi ekki til að stöðva stærstu flóðin úr Bjólfinum auk þess sem þeir hafi engin áhrif á snjóflóð sem eigi upptök neðar í fjallshlíðinni.
Undrandi að vera ekki í forgangi í ljósi sögunnar
Búið er að forhanna þrjá leiðigarða undir Bjólfinum, sem verja myndu byggðina enn frekar en engin ákvörðun liggur fyrir um hvenær ráðist verið í framkvæmdir. Fjölbýlishús við Gilsbakka er eftir framkvæmdirnar 2005 eina íbúðarhúsið á hættusvæði C, mesta hættusvæðinu, en þar eru einnig iðnaðarhúsnæði við Fjarðargötu og Ránargötu.
„Það er ekki komið í ljós hvenær verði farið í framkvæmdir né gefin loforð um hvenær hafist verði handa. Okkur finnst þetta hafa gengið ótrúlega hægt í kerfinu og erum undrandi á hvers vegna Seyðisfjörður hefur ekki verið í forgangi í ljósi sögu staðarins.“
Umræða um snjóflóðavarnir á Íslandi og stöðu Ofanflóðasjóðs hefur blossað upp á ný eftir snjóflóðin sem féllu við Flateyri á þriðjudagskvöld. Snjóflóðavarnagarðar ofan byggðarinnar þar björguðu mannslífum. Í vor skrifuðu bæjaryfirvöld í nokkrum bæjum sem búa við snjóflóðahættu undir áskorun til stjórnvalda um að hert yrði á framkvæmdum. Seyðfirðingar voru þar á meðal. „Maður veit aldrei hvenær þetta gerist. Vonandi kemst núna einhver hreyfing á málin,“ segir Aðalheiður.
Á meðan nýir varnargarðar eru ekki komnir er í gildi rýmingaráætlun sem á að tryggja öryggi íbúa. „Við erum með okkar eftirlitsmenn og Veðurstofan fylgist alltaf vel með þróun mála í fjallinu. Á meðan við höfum ekki frekari varnir verður rýmingaráætlunin að duga.“
Nánari rannsóknir á Botnasvæði
En það eru ekki bara snjóflóð sem valda Seyðfirðingum áhyggjum. Í haust var gefið út nýtt hættumat vegna aurflóða. Með því bættust 17 íbúðarhús undir Botnum í sunnanverðum firðinum, flest við götuna Botnahlíð, á mesta hættusvæði.
Fylgst hefur verið með Neðri-Botnum um nokkra hríð. Sérfræðingar frá verkfræðistofunni Eflu og svissneska fyrirtækinu Geotest skoðuðu aðstæður þar í haust og skiluðu bæjarstjórn minnisblaði sem tekið var fyrir á fyrsta fundi bæjarráðs í ár.
Þar er lagt til að komið verði fyrir frekari mælitækjum til að nýtta þetta ár og næsta til að rannsaka hreyfingu á jarðvegi þar og grunnvatnsstöðu. Niðurstöðurnar verði nýttar til að meta til hvaða varna verði gripið. Áætlaður kostnaður við tækin og rannsóknirnar er rúmar 30 milljónir króna.
„Þegar hættumatið var gert kom í ljós forsöguleg aurflóð. Það er talsvert vatn í hlíðinni en það þarf hamfararigningu til að hún fari af stað. Við höfum því tíma til að forða okkur,“ segir Aðalheiður.
Rýmri árfarvegir skila árangri
Að auki hefur verið fylgst með svokölluðu Þófasvæði, utar í firðinum. Árið 2002 komu í ljós sprungur í jarðvegi á svæðinu sem síðan drógust saman á ný. Þá hafa fallið aurspýjur niður árfarvegi á Seyðisfirði, þar á meðal niður Búðará en við hana stendur húsið sem Aðalheiður hefur búið í í rúm 30 ár. Farvegur árinnar var rýmkaður fyrir nokkrum árum til að draga úr áhrifum aurflóða og segir Aðalheiður þá aðgerð hafa skilað sér.
„Það hefur komið flóð niður ánna að minnsta kosti þrisvar sinnum meðan ég hef búið í húsinu. Áður en farvegurinn var rýmkaður fóru þessu flóð út um allt, lentu meira að segja einu sinni á húsinu, en það hefur ekki gerst eftir að farvegurinn var stækkaður. Það er hægt að gera ýmislegt án þess að það sé stórt.“
Aðalheiður segir að þótt stjórnvöld hafi til þessa sinnt snjóflóðum betur en aurflóðum sýni þessar nýjustu rannsóknir enn frekari þörf á aðgerðum. „Þessi mál eru öll í ferli, en hversu hratt þau fara er stjórnvalda að ákveða. Það hefur ekki gengið eins hratt og lagt var upp með og við höfum þrýst á stjórnvöld um að sinna okkur.“
Sem fyrr leggur Aðalheiður áherslu á að helsta öryggismál Seyðfirðinga séu jarðgöng undir Fjarðarheiði. „Þau eru stærsta öryggismálið. Þegar þau verða gerð fæst líka efni sem hægt væri að nota til að gera snjóflóðavarnagarða.“