Er besta lausnin að stækka Hádegishöfða?

Bæjarstjórn Fljótsdalshérað hefur hafið skoðun á því hvort rétt sé að fylgja eftir fyrri áætlunum um stækkun leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ. Efasemdir eru um að lóð skólans sé nógu stór auk þess sem börnum á Egilsstöðum fjölgi mun hraðar en í Fellabæ.

„Það kom upp meiningarmunur, því er ekki hægt að neita, en það er ekki hægt að segja að búið sé að hætta við. Í raun var búið að ákveða að ráðast í þetta en síðan kemur fram afdráttarlaus vilji til að skoða málið betur og það er erfitt að standa gegn honum.

Það er ákveðið stórmál hvernig við leysum dagvistun barna og ég stend ekki gegn því að skoða það nánar. Tíminn er ekki langur og þörfin er brýn.“

Þetta sagði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs á íbúafundi sem sveitarfélagið stóð fyrir í Egilsstaðaskóla í gærkvöldi. Þar var hann að svara fyrirspurn frá Austurfrétt um hvort verið væri að hverfa frá áformum um að byggja við Hádegishöfða og hvaða lausnir væru til skoðunar í leikskóla- og dagvistunarmálum.

„Menn hlaupa út um hvippinn og hvappinn“

Til íbúafundarins var boðað til að kynna ársreikning bæjarins fyrir síðasta ár. Í umræðum um næstu fjárfestingar skýrði Björn Ingimarsson bæjarstjóri frá því að grípa þyrfti til aðgerða í dagvistun og leikskóla þar sem skólarnir „væru að springa.“ Þar væru ýmsar hugmyndir til skoðunar.

Stækkun Hádegishöfða var í lok síðasta kjörtímabils sett á forgangslista langtímafjárfestinga ásamt framkvæmdum við íþróttahúsið á Egilsstöðum sem nú hyllir undir. Áform um viðbyggingu leikskólans voru síðast áréttuð í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.

Þegar málið kom inn á borð fræðslunefndar og síðar bæjarstjórnar fyrir skemmstu óskaði fræðslunefnd eftir lengri tíma til að vinna málið og inn í það kæmu fulltrúar frá bæjarráði og umhverfis- og framkvæmdanefnd. Sá hópur er nú að störfum og hefur knappan tíma.

„Það er merktur peningur í þetta en síðan eru menn að hlaupa út um hvippinn og hvappinn og nánast að bakka á meðan okkur vantar pláss. Það er að minnsta kosti mín upplifun,“ sagði Páll Sigvaldason, fulltrúi Framsóknarflokksins á fundinum.

Rúmar lóðin 90 barna skóla?

Sigrún Blöndal frá Héraðslistanum sagði að þverpólitísk sátt hefði á sínum tíma verið um langtímaáætlunina og að skoða möguleikann á viðbyggingu. Teikningarnar séu hins vegar orðnar tíu ára gamlar og rétt að rýna þær.

Til dæmis hafi þurft að skoða hvernig koma mætti fyrir starfsmannaaðstöðu, sem nú er í lausri stofu á lóð skólans sem aftur skerðir leiksvæðið. Það hafi að auki vakið upp spurningar upp spurningar um lóðina og fýsileika framkvæmdarinnar í heild. Á lóðinni er einnig spennistöð frá Rarik sem ekki virðist hægt að færa.

„Þegar farið var að skoða málið alvarlega fór fólk að velta fyrir sér hvort þessi lóð væri besta lausnin til að þarna yrði allt í einu 90 barna leikskóli. Framkvæmdatíminn er áætlaður þrjú ár og starfsfólkið hefur sumt áhyggjur af áhrifum þess á skólastarfið.

Eigum við að fara fram án þess að skoða möguleikana betur? Starfsmannaaðstöðuna verður að lagfæra en spurningin er hvort rétt sé að bæta við og hafa þarna fjögurra deila leikskóla með 80-90 börnum. Í hverjum árgangi í Fellabæ eru til dæmis 5-10 börn en 40-50 á Egilsstöðum.

Það átti ekki að henda hugmyndinni út af borðinu en er ekki í lagi að velta fyrir sér hvort þetta sé rétta leiðin þegar farið er út í svona framkvæmd. Það er spurning hvort farið verði í jafn stóra stækkun og fyrirhugað var.“

Brúarásskóli undir fullum seglum

Á fundinum var einnig spurt út í framtíð Brúarásskóla. Gunnar sagði að innan bæjarstjórnar væri full samstaða um að halda skólanum „undir fullum seglum.“ Forsenda þess væri frjálst skólaval því talsvert af nemendum úr þéttbýlinu sæki þangað.

Eins var spurt út í hvort hægt væri að sameina yfirstjórn Fellaskóla og Egilsstaðaskóla og hvað það myndi spara. Sigrún svaraði að ekki hefði verið pólitískur vilji til sameiningarinnar. Þá væri hún ekki sannfærð um sparnaðinn en það gæti hugsanlega bætt þjónustu við nemendur. Nær væri að skoða málið frá þeim sjónarhóli.

Eins var spurt út í stöðu háskólanáms á Fljótsdalshéraði. Björn skýrði þar frá því að til stæði að auglýsa eftir framtíðarstarfsmanni við rannsóknarsetur Háskóla Íslands. Þá væru bundnar vonir við samstarf við Fjarðabyggð og Háskólann á Akureyri um Háskólasetur Austurlands. Til viðbótar sé talsvert fjarnám á háskólastigi á svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.