Er nauðsynlegt að loka sjúkrasviðinu til að spara?

hsalogo.gifEkki var samstaða innan framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) um að leggja til að loka sjúkrasviði Fjórðungssjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað tvo mánuði í sumar í sparnaðarskyni.

 

Það var Lilja Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, sem lagðist gegn lokunni. Í nýjasta tölublaði Austurgluggans er haft eftir henni að hún sé mótfallin forgangsröðun framkvæmdastjórnarinnar og telji ekki þörf á jafn „alvarlegum“ aðgerðum og raun ber vitni.

Lilja var í fríi og sat ekki fundinn þar sem tillagan var samþykkt. Auk hennar eru í framkvæmdastjórninni Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri HSA og Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri lækninga.

HSA er gert að spara um 150-160 milljónir í rekstri sínum á þessu ári. Áætlað er að 50 milljónir sparist með að loka sjúkrasviðinu sem nær yfir fæðingar-, skurð- og lyflækningadeildir á meðan starfsmenn taka út sumarleyfi sín. Þeir sem þurfa þjónustu deildanna, til að mynda þungaðar deildir, verður vísað til Akureyrar og Reykjavíkur á meðan lokað er.

Tillögurnar voru unnar í samráði við velferðarráðuneytið en sérfræðingar á vegum ráðuneytisins lögðu til lengri lokun fæðingar- og skurðdeildar. Tillögur framkvæmdastjórnarinnar eru til meðferðar í ráðuneytinu.

En lokunin skilar aðeins þriðjungi af tilætluðum sparnaði. „Þessi aðgerð dugar ekki ein og sér og við munum nýta þær aðgerðir sem við notuðum í fyrra til að hagræða í rekstrinum. Aðgerðir eins og takmörkun á opnun heilsugæslustöðva, fækkun yfirvinnustunda og bakvakta eru á meðal þeirra aðgerða sem grípa þarf til og væntanlega þarf meira til,“ er haft eftir Einari í blaðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.