Er nauðsynlegt að loka sjúkrasviðinu til að spara?
Ekki var samstaða innan framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) um að leggja til að loka sjúkrasviði Fjórðungssjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað tvo mánuði í sumar í sparnaðarskyni.
Það var Lilja Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, sem lagðist gegn lokunni. Í nýjasta tölublaði Austurgluggans er haft eftir henni að hún sé mótfallin forgangsröðun framkvæmdastjórnarinnar og telji ekki þörf á jafn „alvarlegum“ aðgerðum og raun ber vitni.
Lilja var í fríi og sat ekki fundinn þar sem tillagan var samþykkt. Auk hennar eru í framkvæmdastjórninni Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri HSA og Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri lækninga.
HSA er gert að spara um 150-160 milljónir í rekstri sínum á þessu ári. Áætlað er að 50 milljónir sparist með að loka sjúkrasviðinu sem nær yfir fæðingar-, skurð- og lyflækningadeildir á meðan starfsmenn taka út sumarleyfi sín. Þeir sem þurfa þjónustu deildanna, til að mynda þungaðar deildir, verður vísað til Akureyrar og Reykjavíkur á meðan lokað er.
Tillögurnar voru unnar í samráði við velferðarráðuneytið en sérfræðingar á vegum ráðuneytisins lögðu til lengri lokun fæðingar- og skurðdeildar. Tillögur framkvæmdastjórnarinnar eru til meðferðar í ráðuneytinu.
En lokunin skilar aðeins þriðjungi af tilætluðum sparnaði. „Þessi aðgerð dugar ekki ein og sér og við munum nýta þær aðgerðir sem við notuðum í fyrra til að hagræða í rekstrinum. Aðgerðir eins og takmörkun á opnun heilsugæslustöðva, fækkun yfirvinnustunda og bakvakta eru á meðal þeirra aðgerða sem grípa þarf til og væntanlega þarf meira til,“ er haft eftir Einari í blaðinu.