Er rétt að allar tekjur af fiskeldinu fari suður?

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar gagnrýnir að í frumvarpi um fiskeldi, sem liggur fyrir Alþingi, sé ekki tryggt að auðlindagjald af eldinu verði með einhverjum hætti eftir á þeim stöðum þar sem eldið er stundað. Talað hafi verið fyrir daufum eyrum þegar forsvarsfólk sveitarfélagsins hafi reynt að vekja máls á þessu.

„Eigum við að sæta okkur við að allt gjaldið af fiskinum í fjörðunum fari suður?“ spyr Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Önnur umræða um frumvarp um lög um töku gjald vegna fiskeldis í sjó og um fiskeldissjóð fór fram á Alþingi á fimmtudag. Frumvarpið var lagt fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í mars en hefur síðan verið í meðferð atvinnuveganefndar þingsins.

Í umsögn sem Fjarðabyggð sendi inn um frumvarpið er lýst stuðningi við auðlindagjald en gagnrýnt hvernig farið sé með það. Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er á svipuðum nótum og í umsögn Fljótsdalshéraðs er lýst þeirri skoðun að eðlilegt sé að minnsta kosti hluti renni óskert til viðkomandi sveitarfélaga, án milligöngu ríkissjóðs.

Efast um Fiskeldissjóð

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnaður verði Fiskeldissjóður sem eigi að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Ráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins en ráðstöfunarfé hans er ákveðið á fjárlögum hverju sinni. Árlega skal auglýsa eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styri til verkefna.

Karl Óttar gagnrýnir þetta fyrirkomulag. „Það á að stofna sjóð sem við getum farið suður og betlað í. Alþingi hefur hins vegar val um hvort setja eigi fjármuni í sjóðinn þannig það er ekkert víst að það komi neinir peningar í hann.

Við höfum þegar fordæmi um Ofanflóðasjóð sem á að fá ákveðið hlutfall af gjaldi á brunatryggingar húseigna. Hann nýtist hins vegar ekki og er kominn á eftir áætlun því það er undir fjárveitingavaldinu komið hverju sinni hvort peningar séu notaðir úr sjóðnum.“

Kostnaðurinn eystra en takmarkaðar tekjur

Karl gagnrýnir að fyrst komið sé á auðlindagjaldi sé það ekki eyrnamerkt í að byggja upp eftirlit með eldinu eða þjónustu á þeim stöðum sem eldið er. Þeir hafi engar tryggar tekjur en beri kostnað.

„Við erum að berjast fyrir því að fá til okkar tekjur af iðngrein sem er staðsett er fyrir hér. Við fáum sama og ekkert. Höfuðstöðvar þeirra eru fyrir sunnan og þau borga engan fasteignaskatt. Nú stendur til að auðlindagjaldið fari allt í pott fyrir sunnan. Þá er líka slæmt að óvissa er komin um úthlutun leyfa svo óvíst er um uppbyggingu fiskeldis á Austfjörðum.

Það vekur athygli að það er ekkert eyrnamerkt í að byggja upp eftirlit eða þekkingu á laxeldi á Íslandi. Ríkisvaldið getur notað tekjurnar í það sem það helst kýs en á meðan sitjum við hér uppi með ekkert eftirlit eða að peningar séu eyrnamerktir í að auka þekkingu á greininni og það þótt tekjur sem hér verða til fari í ríkissjóð,“ segir Karl.

Engu breytt sem Fjarðabyggð hefur beðið um

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur einnig ítrekað gagnrýnt að heimamenn hafi lítið um það að segja hvar eldiskvíum er komið fyrir. Í stefnu sveitarfélagsins um fiskeldi er skýrt kveðið á um að ekki verið eldi í eyðifjörðunum sunnan Norðfjarðar, Hellisfirði og Viðfirði, en það virðist ekki hafa áhrif.

„Við höfum takmarkað um það að segja hvar fiskeldið er sett niður. Ríkið hefur ekkert hlustað á óskir okkar um firðinga sem við horfum til þess að byggja upp sem útivistarperlu.“

Karl Óttar hefur komið sjónarmiðum Fjarðabyggðar á framfæri á fundum með bæði atvinnuveganefnd og sjávarútvegsráðherra en það virðist ekki hafa haft nein áhrif. „Svörum sem við fáum er að það þurfi lagabreytingu og ráðuneytið ætli ekki að standa að henni. Nefndin hefur ekki breytt neinu sem við höfum beðið um.

Við reyndum að fá fund með fjármálaráðuneyti og forsætisráðherra til að stuðla að lagabreytingu en það hefur engu skilað. Ríkið hefur ekkert hlustað á okkur og það sýnir valdleysi okkar hér í fjórðungnum að farið er gegn öllum okkar tilmælum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.