Erfitt að samþykkja heillaóskir til manns sem virðir ekki mannréttindi

thorbjorn_pafabref.jpg
Þorbjörn Rúnarsson, íbúi á Egilsstöðum, er ósáttur við að forseti Íslands skuli hafa sent nýjum páfa heillaóskaskeyti í tilefni kjörs hans. Erfitt sé að sætta sig við slíkar óskir til manns sem virði ekki mannréttindi.

Opið bréf sem Þorbjörn birti á Facebook-síðu sinni í kvöld hefur vakið mikla athygli. Í bréfinu, sem stílað er á Francis fyrsta páfa sem heitir að skírnarnafni Jorge Mario Bergolio, lýsir Þorbjörn því yfir að heillaóskir þær sem lýðræðislega kjörinn forseti Íslandi hafi sent séu ekki sendar í hans nafni.

Í bréfinu segir Þorbjörn að stefnu kaþólsku kirkjunnar gegn getnaðarvörnum og samkynhneigðum sé „engan vegin hægt að styðja.“ Því miður gefi yfirlýsingar páfans í fjölmiðlum enga von um að hún breytist. 

„Ég á bágt með að samþykkja heillaóskir til manns sem treður mannréttindi stórs hluta jarðarbúa fótum á þennan hátt,“ sagði Þorbjörn í samtali við Austurfrétt í kvöld.

Þorbjörn endar bréfið á áskorun til páfans um að endurskoða þessa stefnu. Vegna hennar neyðist hann til að draga til baka þær heillaóskir sem sendar hafi verið í hans nafni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar