Erfitt fyrir venjulegan launamann að kyngja frekari hækkunum á flugfargjöldum
Austfirskir sveitarstjórnarmenn vara við neikvæðum áhrifum aukinna álagna á innanlandsflug. Erfitt sé orðið fyrir venjulegan launamanna að ferðast milli Austurlands og Reykjavíkur með flugi.
„Fullt fargjald fram og tilbaka á leiðinni Vopnafjörður-Reykjavík er, nú, 49.500 kr./mann. Ljóst er, af þessu, að erfitt hlýtur að vera fyrir venjulegan launamann að kyngja frekari hækkunum á þessu sviði,“ segir í nýlegri bókun hreppsnefndar Vopnafjarðarhrepps.
Í upphafi árs var tilkynnt um hækkanir á lendingar- farþega- og flugleiðsögugjöldum á Reykjavíkurflugvelli. Að auki eru evrópskir kolefnisskattar að bætast á flugsamgöngur.
„Innanlandsflug er einn helsti máttarstólpinn í almenningssamgangnakerfi landsmanna og er grundvöllur þess að unnt sé að ná fram meginmarkmiðum samgönguáætlunar um það að sem flestir landsmenn geti náð til Höfuðborgarinnar á innan við 3 klukkustundum.“
Á Fljótsdalshéraði segja menn að höggið verði þeim þyngst sem fjærst búa frá kjarnastarfseminni. Flutningsgjöld hafa hækkað, bæði í lofti og á landi, almennur ferðakostnaður snarhækkað síðustu ár. Þetta gæti haft neikvæð áhrif á atvinnuvegi eins og ferðaþjónustu.
„Mun höggið verða þyngst þeim er fjærst búa frá höfuðborgarsvæðinu en þurfa að nýta þennan samgöngumáta til að sækja ýmsa þjónustu til höfuðborgarinnar. Þjónustu, eins og t.d. heilbrigðisþjónustu, sem stjórnvöld vinna skipulega í að draga úr á landsbyggðinni,“ segir í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.