Eskja selur Hafdísi SU
Útgerðarfélagið Eskja á Eskifirði hefur selt línubátinn Hafdísi SU-220. Báturinn er seldur án allra aflaheimilda.Gengið var frá kaupunum í byrjun september og er kaupandinn Nesver ehf. á Rifi.
Hafdís er 18 brúttótonna, 15,5 metra langur línubátur, smíðaður árið 1999. Skipið hefur veitt bolfisk fyrir Eskju undanfarin ár.
Skipið er selt án aflaheimilda og segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs Eskju, að fyrirtækið hafi undanfarin ár unnið að því að skipta út veiðiheimildum sínum í bolfiski fyrir heimildir í uppsjávartegundum til að styrkja kjarnastarfsemina á Eskifirði. Því stendur ekki til að fá annan línuveiðibát í stað Hafdísar.
Sveitarfélagið Fjarðabyggð kaus að nýta ekki forkaupsrétt sinn að bátnum. Í erindi til sveitarfélagsins kemur fram að borist hafi kauptilboð í Hafdísi upp á 45 milljónir króna.