Eymundur í Vallanesi hlýtur Fálkaorðuna
Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, hlaut í dag
riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði
búskaparhátta og matvælamenningar. Forseti Íslands afhenti ellefu
Íslendingum orðuna á Bessastöðum.
Eymundur hefur undanfarin ár verið leiðandi í lífrænum landbúnaði hérlendis með merkinu „Móðir Jörð“. Einna þekktastur hefur Eymundur verið fyrir byggræktun sína en hann hefur sett ýmsar grænmetistegundir á markað. Hann hefur einnig selt lífræn jólatré. Framleiðslan í Vallanesi hefur vakið athygli út fyrir landssteinana.
Eymundur hóf búskap í Vallanesi árið 1979 en búskapur hafði þá verið „slitróttur“ um nokkurra ára skeið. Eymundur sat að auki í hreppsnefnd Vallahrepps frá 1982-94.