Eyrin heilsurækt ehf. kaupir öll tæki líkamsræktarinnar á Reyðarfirði

Eyrin heilsurækt hefur samið við Fjarðabyggð um kaup á öllum tækjabúnaði líkamsræktarinnar á Reyðarfirði. Búnaðurinn mun um áramótin færast úr íþróttahúsinu í húsnæði Eyrarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjarðabyggð. Samningur við Eyrina var samþykktur í bæjarráð í byrjun vikunnar en fer fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu í næstu viku.

Samið er um að Eyrin yfirtaki allar skyldur Fjarðabyggðar gagnvart kothöfum og öðrum notendum líkamsræktarinnar. Öll kort gilda út þeirra gildistíma. Gert er ráð fyrir að umskiptin verði um áramót. Frá 1. janúar verður líkamsrækt Reyðfirðinga í húsnæði Eyrarinnar að Strandgötu 1. Þar er aðgengi allan sólarhringinn.

Í tilkynningunni kemur fram að þeir þátttakendur í Janusar-verkefninu fái aðgang að Eyrinni, án aukakostnaðar, til 1. september 2025. Eyrin hefur lýst yfir vilja til að semja að þjónusta verkefnið áfram eftir það.

Þá fá iðkendur á vegum íþróttafélaganna í Fjarðabyggð frían aðgang að Eyrinni fram til 1. september 2025 samkvæmt reglum um gjaldfrjálsa notkun íþróttafélaganna af líkamsræktum Fjarðabyggðar.

Eyrin heilsurækt var stofnuð fyrir um ári þegar hún yfirtók rekstur Ýmis, sem upphaflega var stofnuð sem crossfit-stöð árið 2019.

Eigendur Eyrinnar. Anna Steinunn Árnadóttir, Bergsteinn Ingólfsson, Katrín Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Ólafsson, Laufey Frímannsdóttir og Helgi Laxdal Helgason. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar