Fé flutt frá Stórhóli suður í Hornafjörð

lomb.jpgBændur á Stórhóli í Álftafirði fluttu um 150 kindur suður til Hornafjarðar áður en til vörslusviptingar kom fyrir jól. Matvælastofnun hafði óskað eftir því við sýslumanninn að á annað hundrað fjár yrði tekið úr vörslu ábúenda þar sem ekki væri pláss fyrir það í húsunum.

 

Áður en til sviptingarinnar kom fluttu ábúendur um 150 kindur suður í Hornafjörð, samkvæmt heimildum Agl.is. Beiðnin um vörslusviptinguna var því afturkölluð.

Stórhóll komst fyrst í fréttirnar á sauðburði 2009 en alvarlegar athugasemdir voru þá gerðar búskapinn þar sem féð var illa fóðrað og dauðar skepnur höfðu ekki verið grafnar. Var það þó ekki í fyrsta skipti sem yfirvöld gerðu athugasemdir við aðbúnaðinn á bænum.

Málið fór fyrir dóm þar sem ábúendur voru dæmdir. Stefanía Lárusdóttir, ábúandi, hefur síðan haldið því fram í fjölmiðlum að hún hafi játað á sig illa meðferð á dýrum til að sleppa við frekari málarekstur.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti um sumarið að svipta ábúendur leyfi til búfjárhalds en varð að gefa eftir og setja í staðinn sett ströng skilyrði fyrir áframhaldandi leyfi. Fénu, sem þá var yfir 1000 yrði fækkað verulega og fóðrun bætt. Eftir vörslusviptingu var fénu fækkað í 760 kindur og nýr umsjónarmaður gekkst í ábyrgð fyrir búreksturinn fram á vor.

Fulltrúar Matvælastofnunar fóru í eftirlitsferð á Stórhól í desember. Féð reyndist vel fóðrað en athugasemdir voru gerðar við að ekki hafði verið reynt að lækna eða aflífa slasaða gripi. Húsakostur reyndist einnig þröngur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar