Fæðingardeildin í Neskaupstað lokuð í tæpa viku
Sökum skorts á svæfingarlækni verður að grípa til þess ráðs að loka fæðingardeildinni á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað frá og með kvöldinu og fram til næstkomandi laugardags.
Þetta staðfestir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) við Austurfrétt. Guðjón hafði fyrr í sumar staðfest að endrum og sinnum kæmi upp sú staðar hér austanlands að ekki tækist að manna fæðingardeildina eins og þurfa þykir. Tæknilega séð er hún aldrei lokuð en ákveðinn fjöldi sérfræðinga verða að vera til staðar öryggisins vegna á fæðingardeildinni og þegar skortur er á þeim verður að senda ófrískar konur annað.
Í júlímánuði rákust nokkrar konur sem þurftu norður til Akureyrar að fæða sökum manneklu í Neskaupstað á að formlegt sjúkrahótel í þeim bænum var uppbókað og þær fengu ekki gistingu eins og ráð er fyrir gert þegar fara þarf langar leiðir vegna fæðinga eða annars. Ólíklegt er talið að sú staða komi upp nú enda mikið dregið úr straumi ferðamanna en það var ástæða þess að fullbókað var á umræddu hóteli í sumar.