Fagna minni launamun en vilja jafna hlutföll sviðsstjóra

Fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar telja að næsta skref í jafnréttismálum sveitarfélagsins verð að jafna hlut kvenna meðal sviðsstjóra. Sveitarfélagið fékk nýverið viðurkenningu fyrir jafn laun karla og kvenna.


Fjarðabyggð fékk nýverið gullmerki jafnlaunaúttektarendurskoðunarfyrirtækisins PWC. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi árangur þar sem launamunur kynja er innan viðmiðunarmarka. Launamunur hjá sveitarfélaginu á grunnlaunum sé 1,1% og 2% á heildarlaunum sem sé ekki skýranlegur munur.

Nefndir sveitarfélagins hafa undanfarið fagnað árangrinum og það var einnig gert þegar málið var rætt í bæjarstjórn í síðustu viku.

Fulltrúar Fjarðalistans bentu hins vegar á að halda þyrfti áfram að jafna hlut kynjanna og næst á dagskrá væri sviðsstjórastöður. Ein kona starfar sem slík hjá sveitarfélaginu en fimm karlar. „Slíkt hlutfall er óásættanlegt og eðlilegt að næsta verkefni verði að breyta því,“ segir í bókun listans.

„Það er gríðarlegt fagnaðarefni að fá staðfestingu á hve vel er haldið á málum en hallinn í sviðsstjórastöðunum hrópar sannarlega á mann,“ sagði Esther Ösp Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi listans.

Hún óskaði eftir skýringum bæjarstjóra og spurði hann út í stefnu til framtíðar. Bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson, benti á að það væri bæjarráðið sem réði í stöðuna en bæjarstjóri sæi um ráðningarferlið.

Hann tók hins vegar undir að jafna bæri hlutfallið og æskilegt væri að hafa stjórnendahópinn sem breiðastan. Það sé gert aðra hverja viku með að fá fleiri inn á fundi sviðsstjóra. Erfitt sé hins vegar að breyta stöðunni fljótt nema fjölga.

Páll Björgvin fagnaði einnig árangrinum í jafnlaunavottuninni og benti á að hún staðfesti að vel væri haldið á málum, meðal annars með að fara vandlega eftir kjarasamningum.

Einar Már Sigurðsson, fulltrú Fjarðalistans, notaði tækifærið líka til að rifja þróun mála á sveitarstjórnarstiginu. „Þegar ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í Neskaupstað, þar sem hallaði verulega á konur sá ég ekki fram á að lifa að sitja í bæjarstjórn eins og nú þar sem konur eru í meirihluta.“

Einar Már benti líka á halla á fleiri stöðum. „Meirihluti kennara í grunn- og leikskólum eru konur en í áhaldahúsinu eru karlar alls ráðandi. Ég held að það sé ástæða til að velta fyrir sér hvað hægt er að gera.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.