Fagradal verður lokað vegna snjóflóðahættu
Veginum yfir Fagradal verður lokað nú klukkan 22:00 vegna snjóflóðahættu. Gul veðurviðvörun verður í gildi á Austfjörðum fram yfri hádegi á morgun. Snjóbrettafólk hratt af stað flóð í Oddsskarði í morgun.Gul viðvörun er gengin í gildi fyrir Austfirði og gildir til klukkan 15 á morgun. Á þeim tíma er spáð suðaustan 10-18 m/s með snjókomu eða skafrenningi en norðaustlægari vindi undir morgun.
Færð er farin að spillast á vegum, þæfingur á Jökuldal og milli Djúpavogs og Hafnar. Líklegt er að fjallvegir lokist eftir að þjónustu verður hætt. Þegar hefur verið ákveðið að loka Fagradal í nótt vegna snjóflóðahættu.
Í yfirliti ofanflóðadeildar Veðurstofunnar segir að gangi spá um ákafa snjókomu og skafrenning í hvössum austan- og norðaustanáttum eftir í nótt sé líklegt að snjóflóðahætta aukist mikið á Austfjörðum. Snjósöfnun gæti orðið yfir 1 metri þar sem snjórinn sest.
Ólíklegt er talið að hætta skapist í byggð en sérfræðingar Veðurstofunnar eru á vakt. Útivistarfólki er bent á að fara varlega næstu daga, einkum í og undir bröttum brekkum, því hætt er við að nýi snjórinn verði óstöðugur eftir að veðrinu slotar. Spáð er hlýnandi veðri með rigningu í lok vikunnar og þá er líklegt að náttúruleg flóð falli.
Snjóbrettafólk í Oddsskarði setti af stað flekaflóð ofan við munna gömlu Oddsskarðganganna í dag. Eins féllu litlar spýjur undan klettum í sólskini við Seyðisfjörð.
Snjóflóðið í Oddsskarði í dag. Mynd: Veðurstofa Ísland