Fallið frá appelsínugulri viðvörun á Austurlandi

Gul viðvörun vegna veðurs gekk í gildi á veðurspásvæðinu Austurlandi að Glettingi klukkan níu í morgun. Hún stendur út morgundaginn. Appelsínugul viðvörun sem gefin hafði verið út fyrir morgundaginn hefur verið afturkölluð.

„Veðurspáin nú gerir ráð fyrir örlítið hlýrra veðri en spáð var í gær. Það er útlit fyrir slyddu eða blauta á stöku stað en ekki nóg til að við gefum út appelsínu gula viðvörun.

Sérstaklega eru minni líkur á að snjó festi á vegum. Veghitinn þarf að fara í 1-2 gráðu áður en snjó festir þar af alvöru. Við sjáum að á Jökuldalsheiðinni er veghitinn enn rúmar fjórar gráður og svipað á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Meðan það helst festir snjó ekki þar.

Hins vegar er veghitinn á Fjarðarheiði kominn niður í 2,5 gráður og þar er farið að grána. Þar er styttra í að snjóinn festi.

Við sjáum fram á að þetta verði fyrst og fremst slydda eða slabb, en það er fyllsta ástæða til að fara varlega því fólk er enn á sumardekkjum. Þetta er heiðarleg gul viðvörun sem er í gildi í dag og á morgun,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Talsverð úrkoma í nótt og á morgun


Viðvaranir voru upphaflega gefnar út um miðjan dag í gær en endurskoðaðar sem fyrr segir klukkan tíu í morgun. Gul viðvörun tók gildi klukkan níu í morgun og gildir þar til klukkan níu annað kvöld á Austurlandi að Glettingi.

Á þessum tíma er gert ráð fyrir norðvestan 8-15 m/s á spásvæðinu. Hvassast verður á annesjum. Búist er við dálítilli úrkomu sem falli sem rigning í byggð en slydda til fjalla. Í hana bætir í nótt. Hiti verður 2-8 gráður.

Engin viðvörun er í gildi fyrir Austfirði en þar er einnig spáð nokkuð stífri norðanátt, 10-15 m/s með slydduél. Annað kvöld bætir í vindinn. Einnig er í gildi gul viðvörun fyrir miðhálendið þar til klukkan 11 annað kvöld.

„Á Austurlandi er éljagangur í dag. Í kvöld bætir í úrkomuna og hún verður samfelld frá því eftir miðnætti og þar til annað kvöld. Þá dregur úr og fer aftur í skúraveður.“

Aðeins éljagangur á miðvikudag


Á miðvikudag er áfram spáð hvössum norðanáttum með éljagangi á Austurlandi og Austfjörðum á miðvikudag og fram eftir fimmtudegi. Eiríkur telur þó ólíklegt að nýja viðvaranir verði gefnar út. „Það verður áfram allhvasst og kalt en það dregur úr úrkomunni þannig þetta verður bara stöku éljagangur. Þess vegna er ólíklegt að viðvörunin verði framlengd.“

Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar eru hálkublettir á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði. Vefmyndavélar sýna éljagang og að jörð í kringum vegina er farin að grána. Á þó nokkrum stöðum eystra var grátt í fjöll í morgun. Eiríkur segir rétt fyrir bændur að fylgjast með stöðunni og til að mynda í Fljótsdal var göngum flýtt í gær. Ljóst sé að snjór muni falla efst til fjalla en veðrið verði ekkert í líkingu við það sem skall á haustið 2012 þegar talsverður fjárskaði varð. Skyggni fyrir smala verður þó sérstaklega takmarkað í úrkomunni á morgun.

Nokkuð snörp umskipti urðu í veðrinu í gær. Eftir hlýja helgi féll hitinn á Egilsstaðaflugvelli frá 13,5 gráðum á hádegi niður í 7,1 gráðu klukkan 18 og hélt áfram niður á við eftir það. Síðdegis í gær féll haglél á Héraði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar