Fallið frá kröfu um að Hafnarhólmi verði þjóðlenda

Íslenska ríkið hefur fallið frá kröfum í um það bil helming þeirra eyja og skerja sem það fór upphaflega fram á að yrðu gerðar að þjóðlendum. Hafnarhólmi við Borgarfjörð er meðal þeirra sem falla út eftir endurskoðun. Áfram er þó gerð krafa í ríflega 100 eyjar og sker á Austurlandi.

Fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins, gerði um miðjan febrúar upphaflegu kröfurnar. Þar var Papey eina eyjan við Austfirði sem var undanskilin,á þeim forsendum að hún hefði verið byggð í áratugi eftir að lög um hefð voru tóku gildi árið 1905. Það var þá aðeins eyjan sjálf en ekki sker í kringum hana.

Eftir mótmæli dró ráðherra tillögurnar til baka og hóf endurskoðun. Henni er nú lokið og nýjar kröfur hafa verið gefnar út. Um talsverðar breytingar er að ræða því gerðar eru kröfur í um 1000 eyjar og sker í stað um 2000 áður. Hafnarhólmi við Borgarfjörð eystra er meðal þeirra sem falla af listanum.

Meðal þeirra forsenda sem eru nú breyttar er að allan landssvæði innan ystu marka stórstraumsfjöruborð meginlands eða heimaeyju, teljast tilheyra því landi og eru því utan kröfugerðarinnar. Eins er miðað við að beinn eignaréttur sjávarjarða nái til netlaga, sem miða við 115 metra frá stórstraumfjöruborði.

Þessi ákvæði fella til dæmis Hafnarhólmann af listanum en einnig nokkur sker í nágrenni Papeyjar. Af öðrum stöðum sem ekki eru lengur gerðar kröfur í má nefna Skipshólma og Leiðarhafnarhólma á Vopnafirði, eða Þvottáreyjar, Hrómundarey eða Skipamannahólma í Hamarfirði og Álftafirði.

Eftir standa kröfur í 105 eyjar og sker á Austurlandi, sem í þessu tilfelli telst vera báðar Múlasýslurnar og Skaftafellssýslurnar, eða frá Vopnafirði og suður í Mýrdal. Ríkið gerir þannig áfram kröfur í eyjar á borð við Skrúð í Fáskrúðsfirði, Bjarnarey í Vopnafirði og Seley í Reyðarfirði auk hluta af Hólmunum í Reyðarfirði.

Í tengslum við endurskoðunina hefur verið aflað frekari gagna sem skilar sér meðal annars í að fleiri eyjar og sker eru nafngreind í kröfunum en áður. Þá hefur verið opnuð sérstök kortasjá þar sem sjá má innan blárra útlína hvaða eyjar og sker ríkið telur sínar.

Kröfurnar eru nú komnar til Óbyggðanefndar sem fer með rannsóknar og úrskurðarhlutverk í málunum. Landeigendur, sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, hafa nú tíma til 13. janúar til að skila inn gögnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar