Fékk 20 þúsund aukalega í bætur fyrir handtöku eftir dómsmál

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða karlmanni 170 þúsund krónur í bætur vegna handtöku sem hann sætti við húsleit á Seyðisfirði sumarið 2022. Maðurinn höfðaði dómsmálið því honum þóttu bætur sem ríkið bauð honum fyrst vera of lágar.

Lögreglan á Austurlandi, með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra, gerði húsleit á heimili mannsins og sonar hans á Seyðisfirði um verslunarmannahelgina árið 2022. Þeir voru báðir handteknir og hald lagt á skotvopn sonarins í aðgerðinni.

Ráðist var í hana þar sem yngri maðurinn hafði skömmu áður skotið á bifreið. Þegar lögregla hafði afskipti af syninum svaraði hann að „hópur af svertingjum“ hefði ekið framhjá og skotið á bílinn með vélbyssum. Nágrannar höfðu látið vita af undarlegu háttalagi hans.

Handjárnaður á grúfu uppi í rúmi


Maðurinn sagði frá því að hann hefði verið háttaður uppi í rúmi og verið að sofna þegar hann heyrði hávaða og síðan lögreglan verið komin inn í húsið. Hann hafi rétt svo náð að koma sér í brók þegar lögregla skipaði honum að leggjast á grúfu í rúmið og handjárnaði hann. Þannig var hann undir ábreiðu á meðan leitað var í húsinu.

Manninum var tilkynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings, farið yfir réttindi hans og boðinn verjandi en ekki nánar hvert sakarefnið væri. Þar með hafi ekki verið brotið gegn rétti hans um að vita tafarlaust sakarefnið. Eftir rétt rúma klukkustund voru feðgarnir látnir lausir.

Upplifði niðurlægingu


Maðurinn taldi handtökuna hafa verið tilefnislausa enda hann ekki grunaður um neitt misjafnt, tengsl við rannsókn eða sakborning væri ekki næg ástæða til handtöku. Engin þörf hefði verið á að tryggja vettvanginn, hann engum ógnað og hægt hefði verið að biðja hann kurteislega um að fara. Með að handjárna hann nær nakinn og hafa hann á grúfu í rúma klukkustund hafi verið beitt óþarfa valdbeitingu og brotið gegn mannréttindum hans.

Maðurinn sagði sér hafa þótt aðbúnaður sinn niðurlægjandi. Ekki kom fram að hann hefði hlotið varanlegan skaða af en hann sagðist þó enn hrökkva við þegar hann heyrði í þyrlu, en þyrla Landhelgisgæslunnar sótti sérsveitarmennina austur eftir aðgerðina.

Maðurinn sendi ríkinu kvörtun strax haustið 2022 og fékk vorið 2023 boð um 150 þúsund krónur í bætum, auk vaxta og lögfræðikostnaðar. Það taldi maðurinn ekki nóg og áfrýjaði til héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hann fór fram á eina milljón í bætur.

Handtakan lögmæt


Af hálfu íslenska ríkisins var því hafnað að handtakan hefði verið ólögleg eða ekki gætt að meðalhófi. Nauðsyn hefði verið talin að handtaka alla sem voru í húsinu til að koma í veg fyrir að þeir kæmust að skotvopnum eða gætu spillt sönnunargögnum. Aðgerðin hefði verið þörf til að haldleggja skotvopn sonarins og afla frekari sannana um vopnalagabrot hans. Húsleitin var gerð að fengnum dómsúrskurði. Lögreglan á Austurlandi sá um hana en óskaði aðstoðar sérsveitarinnar við handtökur og að tryggja vettvang.

Í niðurstöðu dómsins að ekki hafi verið ástæða til að kynna honum sérstaklega sakarefnið. Hann hefði sjálfur látið lögreglu vita af því að sonur hans hefði skotið á bifreið og vitað að sá geymdi skotvopn á heimilinu, þannig honum hefði átt að vera tilefnið ljóst. Handtakan hafi verið lögleg, lögregla þurft að tryggja vettvanginn, meðalhóf verið virt og manninum sýnd tillitssemi meðan aðgerðinni stóð.

Hins vegar geti tryggð réttindi borgara verið tryggð í lögmætum aðgerðum þannig að í því felist miski. Dómurinn mat því rétt að greiða manninum 170 þúsund, auk vaxta, í bætur. Honum var veitt gjafsókn þannig tæplega 600.000 króna laun verjanda hans falla á ríkið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar