Tveir teknir með skotvopn á Seyðisfirði
Lögreglan á Austurlandi handtók á laugardag tvo einstaklinga á Seyðisfirði og haldlagði skotvopn. Sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í aðgerðinni.Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu sem sögð er vera vegna fyrirspurna um aðgerðina.
Sérsveitin tók þátt samkvæmt verklagi þar sem grunur var um að vopn væru á vettvangi. Þyrla flutti sérsveitarmenn til Egilsstaða fyrir aðgerðina og frá Seyðisfirði eftir hana. Hún tók ekki þátt í aðgerðinni að öðru leyti.
Einstaklingarnir voru látnir lausir úr varðhaldi stuttu síðar. Rannsókn málsins er í gangi og ekki veittar nánari upplýsingar að svo stöddu.