Félagsdómur á að vera neyðarúrræði

Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð vilja að úttekt verði gerð á kostnaði sem sveitarfélagið hafi lagt í vegna málarekstrar fyrir félagsdómi á undanförnum árum. Dómurinn sé úrræði sem helst eigi ekki að þurfa að nota.


„Þegar sveitarfélag ákveður að fara með mál fyrir dóm sem varðar einstaka starfsmenn fyrir dóm er það sterkari aðilinn. Þetta veldur miklum óþægindum fyrir einstaklinga, eykur starfsóánægju og svo framvegis.

Félagsdómur er neyðarúrræði. Það er til samráðsvettvangur sem hefur nýst og gefist vel til að leysa úr ágreiningi um kjarasamninga. Það á aldrei að nota dómstóla sem fyrsta kost.“

Þetta sagði Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í umræðum á síðasta fundi bæjarstjórnar. Tilefni umræðunnar var nýr samningur við slökkvilið Fjarðabyggðar um sjúkraflutninga en í honum er sérstakt uppsagnar ákvæði um niðurstöðu félagsdóms.

Fjarðabyggð býður niðurstöðu félagsdóms í máli hlutastarfandi slökkviliðsmanns gegn sveitarfélaginu og tapaði í fyrra máli gegn tveimur skólaliðum.

Fjarðabyggð notuð í prófmálin

Ragnar og Einar Már Sigurðsson, Fjarðalistanum lýstu þeirri skoðun sinni að fulloft væri leitað til dómsins vegna ágreinings sveitarfélagsins við starfsmenn um túlkun kjarasamninga.

Einar Már sagði stöðuna þá að Fjarðabyggð væri það austfirska sveitarfélag sem oftast væri fyrir félagsdómi. „Það er eitthvað sem við þurfum að íhuga mjög alvarlega. Það á ekki að líta á félagsdóm sem eðlilegt ferli til að leysa ágreiningsmál.“

Hann kallaði eftir að gerð yrði úttekt á þeim kostnaði sem sveitarfélagið hafi orðið fyrir síðustu tíu ár vegna málarekstrar fyrir dóminum og hann borinn saman við önnur sveitarfélög. Verði raunin sú að hann sé hærri þurfi að skoða málið.

Einar Már spurði einnig hvort Fjarðabyggð færi fyrir dóm eftir ráðleggingu launanefndar sveitarfélaga og hvort það væri „oftar tilraunadýr“ en önnur sveitarfélög þegar kæmi að því að láta skera úr um ágreiningsefni.

„Í einstaka undantekningartilfellum geta menn lent í að ná ekki saman en mér finnst þetta of oft.“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar tók undir að enginn vildi fara fyrir félagsdóm og hét því að bæjarráð myndi láta taka saman umbeðnar upplýsingar.

Getur þurft að fá dóm

Bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson sagði að alltaf væri reynt að leita lausna og langur aðdragandi væri að því að deilumál færu í félagsdóm.

„Ef það gengur ekki að leysa úr málum í samráðsnefnd þá er farið fyrir félagsdóm. Ég vil ekki kalla það slæmt að fara fyrir dóm því þar eiga heima þau mál sem þarf að leysa úr. Það getur verið gott fyrir báða aðila að fá skorið úr um hvernig á að leysa ákveðin mál.“

Fjarðabyggð fékk nýverið viðurkenningu fyrir góðan árangur í að jafna laun karla og kvenna sem starfa þar. Páll Björgvin sagði agi við að fara eftir kjarasamningum eina af undirstöðum þess árangurs. „Það er áhersla á að hafa hlutina rétta samkvæmt samningum en ekki búa til auka samninga.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.