Félagsstarf eldri borgara á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði lagt niður tímabundið

Félag eldri borgara á Reyðarfirði hefur í samráði við Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar ákveðið að fella tímabundið niður félagsstarf eldri borgara. Félag eldri borgara á Fáskrúðsfirði tók einnig ákvörðun um lokun í gær frá deginum í dag. 

  

Á vef Fjarðabyggðar segir að með þessum aðgerðum vill félagið bregðast við leiðbeiningum landlæknis vegna Covid-19 og leggja sitt af mörkum til að sporna gegn útbreiðslu sjúkdómsins og verja einstaklinga í áhættuhópum.

Helga Elísabet Guðlaugsdóttir félagsmálafulltrúi Fjarðabyggðar segir að verkefnastjóri sem hefur umsjón með málefnum eldri borgara hefur verið í samskiptum við félögin og gengið úr skugga um að allir séu upplýstir um æskileg viðbrögð við smithættu.

„Félag eldri borgara á Reyðarfirði óskaði eftir að loka félagsstarfinu tímabundið en þar vinnur einn starfsmaður og var það því gert í samstarfi félagsins og Fjarðbyggðar. Hin félögin eru með þjónustusamning við Fjarðabyggð þannig að þar eru ekki starfsmenn á okkar vegum. Önnur félög fylgjast líka vel með framvindunni.“

Hún bætir við að þar sem enn hefur ekki verið sett á samkomubann telur Fjarðabyggð ekki rétt að skikka félögin til að loka og treystir því að eldri borgarar sem og aðrir gæti vel að hreinlæti og óþarfa snertingum við annað fólk.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar