Fellabakstur gjaldþrota: Því miður gekk þetta ekki upp
Fellabakstur var úrskurðaður gjaldþrota í byrjun vikunnar. Skiptastjóri hefur þegar auglýst reksturinn til sölu. Fyrrum eigandi segir reksturinn hafa verið þungan lengi og margt hafa verið reynt til að bæta úr síðustu vikur sem því miður hafi ekki gengið upp.„Við skiluðum inn beiðni um gjaldþrot í lok síðustu viku. Héraðsdómari tók sér ekki langað umhugsunarfrest heldur úrskurðaði félagið gjaldþrota á mánudag og skipaði skiptastjóra. Við náðum að borga út laun um síðustu mánaðamót. Það var léttir því það leit ekki vel út á tímabili skömmu fyrir áramót,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi Fellabaksturs.
Betra að koma inn í reksturinn en stofna til samkeppni
Þráinn keypti Fellabakstur, sem upphaflega var stofnað árið 1968, snemma árs 2021, en hann átti fyrir meðal annars veitingastaðinn Salt á Egilstöðum og Hótel Valaskjálf og Hallormsstað. „Reksturinn á bakaríinu var þarna orðinn mjög þungur. Það var ekki fyrir að þáverandi eigendur legðu sig ekki fram en einhverra hluta vegna gekk þetta ekki.
Á sama tíma var ég með eigin hugmynd um að opna litla bakarísverslun, frekar en framleiða mest fyrir verslanir eins og bakaríið hafði gert. Mér fannst vera kallað eftir því úr samfélaginu.
Þarna barst mér til eyrna að bakaríið stæði ekki vel og að það gæti orðið til góðs fyrir alla ef ég kæmi inn í það frekar en opna nýtt í beinni samkeppni. Við Björgvin (Kristjánsson, bakari og þáverandi eigandi Fellabaksturs) töluðum saman. Hann hafði áhuga á að selja það varð úr þannig við tókum á okkur skuldbindingar bakarísins.“
Erfið samkeppni við verksmiðjubakaríin
Skömmu eftir kaupin var kaffihús og bakarísbúð í Fellabæ endurbætt og ný búð opnuð á Egilsstöðum ásamt því að selja brauð til verslana. Þráinn segir að síðarnefndi þátturinn hafi alltaf verið bakaríinu erfiður.
„Þegar við komum inn er 90% framleiðslu bakarísins selt til endursölu, mest verslana. Við sáum ekki að það gengi upp fjárhagslega en gáfum því tækifæri því við töldum brauðið okkar betra en það sem flutt er að og er mögulega orðið tveggja til þriggja daga gamalt. Við lögðum í talsverðan kostnað við hönnun nýrra umbúða til að efla okkur í samkeppninni en það jók því miður ekki söluna eins og þurft hefði.“
Þráinn bendir á að í raun séu tvö bakarí, Myllan og bakarí Gæðabaksturs, sem framleiði nær allt það brauð sem pakkað sé í plastpoka og selt í íslenskum verslunum. Þau bakarí séu orðin afar tæknivædd og því hagkvæm. Ýmislegt fleira hafi þróast á verri veg fyrir bakarí eins og Fellabakstur.
„Ég held að við höfum verið orðið eina bakaríið á landsbyggðinni sem framleiddi brauð í plastpokum í verslanir. Í byrjun árs fengum við gagnrýni þegar við hættum að keyra brauði niður á firði þannig að verslanirnar gátu ekki fyllt á með okkar brauði eftir áramótin. Því miður gengur það ekki upp að reka bakaríið hér þannig að það selji brauð þegar hin eru ekki til, eftir löng frí eða stórar helgar.
Við getum ekki keppt við stóru verksmiðjubakaríin þar sem mannshöndin kemur nánast hvergi nærri heldur tölvur stjórna færiböndunum og brauðin eru send inn á frysti. Á sama tíma eru launahækkanir og síðan hefur allt korn hækkað vegna stríðsins í Úkraínu.
Síðan getum við nefnt „bake-off“, óbakað brauð sem flutt er inn frosið en bakað hérlendis. Við vitum að það eru bakarí sem kaupa frosið deig erlendis frá og hita upp en það hefur aldrei verið gert í Fellabakaríi. Við höfum nýtt okkur þetta á hótelunum, til dæmis með crossaint, enda er þetta að mörgu leyti hið fínasta brauð. Í crossaint þarf smjör og staðan er sú að á innfluttu smjöri eru háir tollar til að vernda innlenda mjólkurframleiðslu á meðan hægt er að flytja inn crossaint án tolla. Þarna er vitlaust gefið.
Við reyndum líka í tvö ár að leita víða um heim eftir handverksbakara, eða konditormeistara. Það gekk ekki og við erum ekki eina íslenska bakaríið í þeirri stöðu.“
Taldi bakaríið vera réttri leið
Þráinn segir að undanfarin tvö ár hafi gengið erfiðlega að rétta við Fellabakstur svo viðunandi væri. „Við fjárfestum mikið í breytingum en móðurfélagið virtist alltaf þurfa að leggja til meira fjármagn. Þetta var í miðju Covid-þar sem ferðaþjónustufyrirtæki fóru illa.
Um mitt síðasta ár ákváðum við að stöðva allt fjárstreymi frá móðurfélaginu inn í bakaríið, það yrði að standa undir sér. Síðsumars ákváðum við að fara í ákveðnar breytingar á bakaríinu og á tímabili í haust fannst okkur vonarglæta. Undir áramótin kom í ljós að þetta væri búið og við yrðum að játa okkur sigruð.
Mér finnst mjög sárt að svona hafi farið og við höfum tapað miklum peningum á þessu. Við reyndum okkar besta og ég var ánægður með á hvaða leið við vorum. Ég segi ekki að bakkelsið okkar hafi verið fullkomið en við vildum gera vel og Björgvin er flinkur bakari.
Ég hef prófað ýmislegt í mínum rekstri og stundum þegar gengur vel telur maður sig ósnertanlegan. Við töldum að með öðrum rekstri, sem notar mikið brauð, væri hægt að reka bakaríið. Við vorum með matvælaframleiðslu sem við færðum inn í bakaríið til að samnýta ferðir og tæki. Þar vonuðum við að heimafólk keypti okkar vöru ef hún væri aðeins vandaðri frekar en það sem flutt væri að. Við hættum þessari framleiðslu nú í febrúar þegar við sáum að hún gengi ekki upp. Kannski var maður eins og Don Kíkóti að berjast við vindmyllurnar – að taka við deygjandi stétt til að reyna að blása í hana lífi.“
Skiptastjóri hefur auglýst rekstur Fellabaksturs í heild til sölu. Þráinn vonast að til frambúðar takist að reka bakarí í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði. „Það er rétt að bakaríum víða um heim fækkar en það er líka að koma upp ný tegund bakaría, kannski líkari þessum handverksbakaríum sem ég horfði til í byrjun. Fyrst og síðast þarf heimafólk að versla við bakaríið til að það gangi upp.“