Fellaskóli 25 ára og Huginn Fellum 80 ára: Myndir
Skólanefnd Fellaskóla átti í vandræðum með að fá menntamálaráðuneytið til að samþykkja heiti skólans þegar honum var komið á fót fyrir aldarfjórðungi. Haldið var upp á afmæli skólans og áttatíu ára Ungmennafélagsins Hugins Fellum um síðustu helgi.
Hátíðahöldin stóðu yfir í þrjá daga. Keppt var í skák á fimmtudegi, haldið upp á afmæli skólans á föstudegi og á laugardagsmorgni var borðtennismót.
Báðar greinarnar hafa löngum verið stundaðar af kappi í skólanum. Sverrir Gestsson, skólastjóri Fellaskóla, upplýsti að mikill áhugi væri á borðtennis í skólanum um þessar mundir. Þar mættu krakkarnir jafnvel kortér í níu til að geta byrjað að spila.
Á föstudaginn var formleg afmælisveisla skólans þar sem Þorsteinn P. Gústafsson, formaður fyrstu skólanefndar Fellaskóla, rifjaði upp byrjunina.
„Það var erfitt að fá heitið Fellaskóli viðurkennt í menntamálaráðuneytinu því fyrir var skóli í Reykjavík með sama heiti,“ sagði Þorsteinn. Það tókst þó um síðir, Fellamenn bentu meðal annars á að Reykvíkingar hefðu byggt sér Áskirkju en kirkja með því heiti hefði um aldaraðir staðið í Fellum.
Fellaskóli var fyrsta skólabyggingin í Fellahreppi. Áður var krökkunum kennt í heimakennslu, síðar á Hallormsstað og loks á Egilsstöðum. Af öðrum atriðum á afmælishátíðinni má nefna tónlistaratriði fyrsta bekks og fjöldadans. Austurfrétt leit við í tilefni dagsins.