„Fer í kaupstað þegar opnast“

Vegurinn upp í Hrafnkelsdal hefur verið lokaður í um hálfan mánuð vegna snjóa. Íbúar er rólegir enda ekki óvanir ástandi sem þessu. Hluti leiðarinnar var opnaður í gær en lokaðist aftur í morgun.

„Það fer ljómandi vel um mann,“ segir Gísli Pálsson, bóndi á Aðalbóli, innsta bænum í Hrafnkelsdal.

Þar fyrir utan er Vaðbrekka og svo Brú, sem er innsti bærinn á Efra-Jökuldal. Ófært hefur verið þangað síðustu tvær vikur.

Í gær var opnað upp í Brú þegar rutt var í gegnum mikinn skafl í Eiríksstaðamjósundum, milli Brúar og Eiríksstaða. Ruðningstækið var hins vegar of stórt fyrir brúna yfir Jökulsá á Brú. Vegurinn lokaðist hins vegar aftur í snjókófi í morgun.

Tækifærið var hins vegar nýtt í gær til að fara með póst upp á innstu bæina. „Pósturinn hafði ekki komið lengi. Hann er á góðum jeppa og hleypir úr dekkjunum,“ segir Gísli.

Íbúar á svæðinu eru ekki óvanir svona aðstæðum og segir Gísli að bæði 2013 og 2014 hafi verið mikill snjór á svæðinu, sem hafi komið á svipuðum árstíma. „Árið 2014 kom líka mikill snjór í Eiríksstaðamjósundin. Seinna árið var ófært í mánuð, þannig þetta er ekki orðinn svo langur tími nú.

Þetta veltur á hvaða vindátt er, austan og suðaustan eru verstar, þá er úrkoma. Norðan er best, þá er engin úrkoma. Maður hefur séð þetta áður, þetta er ekki nýtt. Það er orðið rosalega hvítt yfir og farið að safnast mikið að húsum. Það eru eiginlega snjógöng á veginum frá Arnórsstaðamúla og upp allan Efra-Jökuldal,“ segir Gísli sem fer á snjósleða í fjárhúsinu þessa dagana.

En þótt ekki væsi um Gísla eða hans næstu nágranna þykir honum samt vera komið gott í bili. Spáð er hláku um helgina, en óvíst er hvort hlýindin dugi til að bleyta snjóinn í Hrafnkelsdal en Aðalból stendur í um 400 metra hæð yfir sjó. „Það væri ágætt ef kófið færi að hætta. Við sjáum hvað gerist eftir helgina. Maður far í kaupstað þegar opnast.“

Úr Eiríksstaðamjósundum í gær. Mynd: Bragi S. Björgvinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar