Ferðamálasamtök Austurlands endurskipulögð
Markaðsstofa Austurlands og Ferðamálasamtök Austurlands sameinast á næstunni undir merkjum Ferðamálasamtaka Austurlands. Þetta var samþykkt á aukaaðalfundi samtakanna sem fram fór á Hallormsstað fyrir skemmstu.
Þessi breyting er liður í endurskipulagningu á stoðkerfi Austurlands. Ferðamálasamtökin fengu jafnframt nýjar samþykktir sem gera þau að hreinu félagi ferðaþjónustuaðila án aðildar sveitarfélaganna.
Við sama tækifæri var samþykkt að færa starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar Markaðsstofu Austurlands inn í nýja sameinaða stoðstofnun um næstu áramót. Aðild að nýjum Ferðamálasamtökum Austurlands eiga meðal annars allir þeir 90 ferðaþjónustuaðilar sem verið hafa félagar í Markaðsstofu Austurlands. Formaður samtakanna var kosinn Skúli Björn Gunnarsson á Skriðuklaustri.