Ferðafólki bjargað úr vandræðum við Snæfelli

Björgunarsveitirnar Jöklar og Hérað björguðu í dag fólki sem hafði lent í vandræðum í vetrarferð í nágrenni Snæfells. Vegir á svæðinu eru skráðir ófærir.

Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita laust fyrir klukkan tvö í dag og fóru sveitirnar af stað á sitt hvorum bílnum. Verkefnið gekk vel og var einn bíll, sem lent hafði í vandræðum í krapa, dreginn upp. Fimm farþegar voru í bílnum.

Mikið hefur snjóað í nágrenni Snæfells í gær og áfram í dag. Samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar er greiðfært eftir Fljótsdalsheiði inn að afleggjaranum að Snæfelli. Eftir það eru leiðirnar merktar ófærar, hvort sem er niður í Hrafnkelsdal, inn að Snæfelli eða norður að Kárahnjúkum. Þá eru Þríhyrningsleið og Arnardalsleið á Jökuldalsheiði líka merktar ófærar.

Ekki munu hafa borist fleiri útköll í dag vegna vetrarfærðarinnar. Grátt hefur verið í öll hæstu fjöll á Austfjörðum síðan um síðustu helgi en enn hefur bætt í samfara kulda og úrkomu síðan í gær.

Frá Snæfellsleið í morgun. Mynd: Þuríður Skarphéðinsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar