Ferðamaður lést við Stuðlagil
Ferðamaður, sem féll í Jökulsá við Stuðlagil í dag, fannst látinn um klukkan fimm í dag eftir leit.Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi segir að ferðamaðurinn hafi verið erlend kona á fertugsaldri á ferð ásamt öðrum einstaklingi. Hún hafi fundist látin í ánni skammt neðan við gilið.
Tilkynning um manneskju í ánni við gilið barst lögreglu um klukkan hálf þrjú í dag. Björgunarsveitir víða af Austurlandi voru kallaðar út ásamt sjúkraliði og lögreglu. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið og var nýkomin á staðinn á þeim tíma sem leitinni lauk.
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónnn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir aðgerðir við Stuðlagil hafa gengið vel. Slæmt farsímasamband er þó í gilinu sjálfu. Möguleiki var talinn á að sterkir straumar árinnar hefðu hrifið konuna með sér og borið hana niður farveginn. Ráðstafanir voru því gerðar meðfram ánni til leitar.
Lögreglan á Austurlandi rannsakar tildrög atviksins. Ekki er hægt að veita nánari upplýsingar að svo stöddu en að enginn grunur er um annað en slys.