Ferðamenn í vanda á bílaleigubílum á sumardekkjum

Ferðamenn á ferð um Austurland síðustu daga hafa lent í vandræðum, eða þurft að fresta för sinni, vegna þess að bílaleigubílar sem þeir eru á eru á sumardekkjum. Hætta á sektum virðist draga kjarkinn úr sumum bílaleigum við að koma flota sínum á nagladekk í tæka tíð.

„Við höfum verið með ferðamenn hér á sumardekkjunum og eðlilega líst þeim ekki á blikurnar,“ segir Flosi Jón Ófeigsson hjá Hótel Eyvindará á Fljótsdalshéraði.

Snjór og hálka hafa hulið austfirska vegi síðan á þriðjudag. Þann dag urðu nokkur umferðaróhöpp vegna þess að bílar voru ekki búnir til aksturs í vetrarfærð né vissu ökumenn þeirra hvernig þeir ættu að hegða sér í þessum aðstæðum.

Flosi segir stærri bílaleigurnar, einkum þær sem eru með starfsemi á landsbyggðinni, með dekkjamálin í lagi en vandræðin séu meiri með þá sem taki bíla hjá minni leigum. Þær séu oft ekki með neina þjónustusamninga við dekkjaverkstæði utan höfuðborgarsvæðisins.

Velja öryggið frekar en áhættuna af sektunum

Samkvæmt lögum má ekki keyra um á nagladekkjum fyrr en frá og með 1. nóvember og fram að þeim tíma getur lögregla sektað ökumenn fyrir að vera á nagladekkjum, 20 þúsund krónur á hvert dekk. Af þessu virðast margar minni leigurnar veigra sér við að setja bíla sína á nagladekk.

Halldór Vilberg Ómarsson, verkefnastjóri bifreiðasviðs hjá AVIS, segir forsvarsfólk bílaleiga hafa kallað eftir því að stjórnvöld sýni íslenskum aðstæðum skilning. Leigan er ein þeirra sem eru með útibú á Egilsstöðum. „Við erum með yfir 3000 bíla í flotanum og það tekur tvo mánuði að koma þeim öllum á nagladekk, þótt við það starfi 10-15 manns sem gera ekkert annað. Við byrjuðum því að setja okkar bíla á nagladekk fyrir mánuði,“ útskýrir Halldór.

Hann segir að fyrr í vikunni hafi ökumenn á bílum frá Avis fengið alvarlegt tiltal frá lögregluþjónum á suðvesturhorni landsins fyrir að vera á nagladekkjum. Þeir hafi ekki verið ánægðir þótt þeir hafi sloppið við sektir því þeir voru á bílaleigubílum.

„Það setur okkur í erfiða stöðu að þurfa að velja milli öryggis og þurfa að forðast sektir. Við höfum valið að taka frekar áhættuna á sektunum og hafa öryggið í fyrirrúmi. Bíll sem er leigður í Reykjavík getur verið kominn upp á fjallveg þar sem er fljúgandi hálka eftir 3-4 klukkutíma.

Reglurnar í dag samræmast ekki því sem bílaleigurnar þurfa. Ef við fengjum heimild til að koma bílunum okkar fyrr á nagladekk þá myndum við gera það. Við höfum óskað eftir viðræðum við ráðuneyti ferða- og samgöngumála. Í dag er þetta svo að hver lögreglustjóri fyrir sig, nánast lögregluþjónninn með sektarblokkina,“ tekur ákvörðunina.

Flest öll lögregluembætti landsins sendu frá sér tilkynningar á þriðjudag, eftir að vetrarveðrið hófst, um að í ljósi aðstæðna og eftir fjölda fyrirspurða að ekki yrði sektað fyrir notkun nagladekkja. Það stendur enn. Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fengust þær upplýsingar að bílaleigur njót enga ívilnana varðandi nagladekkin enda engin undanþáguheimild né önnur ákvæði um þær í núgildandi regluverki.

Mikilvægt að bílaleigurnar veiti upplýsingar

Flosi Jón segir ennfremur að nauðsynlegt sé að starfsmenn bílaleiga spyrji ferðamenn sem leigi bíla hvert þeir hyggist halda og veiti þeim upplýsingar. „Bílaleigan er oft fyrsti staðurinn sem fólk fer á eftir að það kemur til landsins. Þess vegna er mikilvægt að það fái upplýsingar og sé spurt hvort það ætli langt.“

Halldór segir umboðsmenn Avis velja bíla eftir aðstæðum. Reynt sé að koma þeim bílum sem eru staðsettir eru á landsbyggðinni, eða eru leigðir til lengri tíma og því líklegri til að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið, fyrr á nagladekk.

Þá fái þeir sem leigi bíla fræðslu áður en þeir taki við lyklunum. „Við erum með bækling þar sem varað er með helstu hættum og sérkennum við akstur á Íslandi. Við reynum að komast að tilgangi ferðarinnar áður og merkja við þrjú atriði í bæklingnum sem sölufulltrúi okkar telur eiga vel við fyrir kúnnann. Þar með persónugerum við bæklinginn sem eykur líkurnar á að viðskiptavinurinn lesi hann.“

Umferðin gekk brösuglega á Austurlandi á þriðjudag. Á Fagradal varð þriggja bíla árekstur. Ökumenn þar voru ekki viðbúnir aðstæðum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar