Fimm skip við loðnuleit

Þrjú skip hafa síðustu daga leitað að loðnu úti fyrir Austfjörðum en ekki enn haft erindi sem erfiði. Loðnugöngur hafa sést úti fyrir Vestfjörðum en þar virðist ungloðna á ferðinni.

Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar, hélt fyrst af stað til leitarinnar á laugardag. Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunarinnar hélt á Vestfjarðamið á mánudag.

Börkur frá Síldarvinnslunni, Aðalsteinn Jónsson frá Eskju og Margrét frá Samherja fóru af stað í gær. Árni, Polar og Aðalsteinn sjá um mælingar og hina eiginlegu leit en Börkur og Margrét eru til aðstoðar.

Börkur, Aðalsteinn og Polar hafa leitað úti fyrir Austfjörðum og eru komin að Héraðsflóa. Að sögn Birkis Bárðarsonar leiðangursstjóra hafa skipin lítið fundið enn. Margrét er nokkru norðar, úti af Vopnafjarðargrunni. „Þau eru að skoða vel upp á grunnin núna.“

Birkir er um borð í Árna Friðrikssyni sem er á Grænlandssundi. „Við höfum séð loðnutorfur með kantinum úti fyrir Vestfjörðum. Við tókum prufur úr þeim torfum og þar reyndist vera ungloðna. Hún nýtist ekki á þessari vertíð en er efniviður fyrir þá næstu.

Gert er ráð fyrir að loðnuleitarskipin mætist síðan úti fyrir Norðurlandi. „Það eru mikil svæði eftir ókönnuð úti fyrir Norður- og Norðausturlandi. Við munum skoða bæði djúpt og grunnt, enda er hefðbundin gönguleið loðnunnar meðfram landgrunnsbrúninni fyrir norðan.

Við höfum heyrt frá bæði bátum og togurum af loðnuslöttum á stöku stað uppi á grunnunum fyrir Norðurlandi,“ segir Birkir.

Mynd: Hlynur Sveinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.