Finna áður óþekktar lífverur í Fáskrúðsfirði

Þýski líffræðingurinn Marco Thines keypti á síðasta ári jörðina Neðri-Vík, utarlega í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Þar áforma hann og samstarfsaðilar hans rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum og og hafa komið upp síritandi mælikvörðum. Merkar niðurstöður eru þegar komnar fram því hópurinn hefur fundið lífverur sem ekki hafa áður fundist í heiminum.

Marco keypti jörðina í fyrra, kom í vor til að skoða betur aðstæður og undirbúa sumarið. Hann kom um mánaðamótin júlí/ágúst með samstarfsfólki sínu, nýdoktornum Anthony Buaya og konu sinni Ichen Tsai, sem einnig er líffræðingur.

„Við höfum lagt áherslu á að skoða sníkjur sem lifa á þangi og kísilþörungum. Við höfum tekið sýni til að komast að því hvaða þörungar lifa í firðinum. Í þessum sýnum höfum við séð lífverur sem aldrei hefur verið lýst áður. Við erum nú að reyna að kanna þær og greina hvaða ættkvísl þær tilheyra. Við höfum líka séð kunnuglegar tegundir sem ekki hafa áður fundist á norðurslóðum.“

Marco, Anthony og Ichen hafa þegar sent inn grein til birtingar í vísindatímariti um áður óþekkt sníkjudýr sem lifir á þörungum í landi Neðri-Víkur. Latneskt heitið dregur nafn af fundarstaðnum „Pontisma blauvikiense“ en Marco fékk á dögunum ósk sína um að nafni jarðarinnar yrði formlega breytt í Blávík uppfyllta.

„Það þurfti að aðgreina jörðina betur og okkur fannst þetta fallegra nafn, víkin hér fyrir neðan er blá og falleg að sjá,“ segir hann um nýja staðarheitið.

Um tegundina, sem fannst einmitt í víkinni beint niður af íbúðarhúsinu, segir Marco að þótt hún sé ekki stór, um 50 míkrómetrar að stærð, þá geti hún haft mikil áhrif í kringum sig. Veran sé líka forvitnileg þegar þar sem pontisma-ættkvíslin lifi yfirleitt á rauðþara en þessi hafi fundist á brúnþara.

Þekkjum illa það sem ekki ber blóm eða feld

Tegundin er ein þriggja áður óþekktra sníkjudýra í þara sem Marco og samstarfsfólks hans hafa fundið hérlendis á síðustu árum. Aðspurður um hvers vegna svona mikið af áður óþekktum tegundum finnist snúist annars vegar um skort á rannsóknum á norðurslóðum, hins vegar að okkur yfirsjáist oft það sem gerist dýpra undir yfirborðinu.

„Við þekkjum orðið vel allt sem hefur feld eða blóm, mögulega eru 1-5% lífvera með blóm enn óþekkt. Hins vegar þekkjum við innan við 10% sveppategunda og enn minna af mock-sveppum.

Rannsóknir á örverum hafa mest verið á heitari svæðum en á norðurslóðum hefur lítið verið skoðað síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Staðreyndin er samt sú að á þeim slóðum er mikill fjölbreytileiki meðal kísilþörunga, þara og sníkjudýra sem á þeim lifa. Að mínu viti er ótrúlegt hvað mikið er ókannað miðað við hversu mikilvægar þessar verur eru fyrir vistkerfin okkar.

Það er talið að kísilþörungar í hafinu séu ábyrgir fyrir að minnsta kosti 20-30% allrar ljóstillífunar á heimsvísu. Sveppirnir og mock-sveppirnir eru þriðja stoðin í öllum vistkerfum. Við kunnum öll grunninn að fæðukeðjunni, plönturnar stunda frumframleiðsluna og dýrin nærast á þeim en síðan er þriðja stigið sem er niðurbrotið eða rotnunin og þar gegna sveppalífverurnar lykilhlutverki.

Í mörgum planta á landi er samlífi í gangi. Ef þú sérð fléttu þá eru sveppir uppstaðan í henni. Þessar lífverur eru afar illa rannsakaðar. Við vitum að sveppalífverur brjóta niður gróðurleifar en geta líka ráðist á heilbrigðar plöntur, jafnt ræktunarjurtir sem villtan þara.“

Vantar rannsóknir á norðurslóðum

Marco er rannsóknaprófessor við Göthe-háskóla í Frankfurt og starfar þar einnig fyrir Senckenberg-stofnunina, sem sérhæfir sig í líffræðilegri fjölbreytni og jarðfræði. Stofnunin stendur að samnefndu náttúrugripasafni sem er eitt hið stærsta í Evrópu.

Hann segist undanfarin ár hafa fengið aukinn áhuga á líffræðilegri fjölbreytni norðurslóða og örveruríkinu þar sem sé lítt rannsakað en líklegt til að verða fyrir miklum áhrifum af loftslagsbreytingum.

„Í mið-Evrópu eru margar rannsóknir í gangi og það svæði þekkjum við orðið vel en lífríki örvera á norðurslóðum er illa þekkt. Hér er enn tiltölulega ósnortið vistkerfi sem hægt er að fylgjast með hvernig breytist næstu 10-20 ár. Upplýsingar héðan geta nýst til að spá fyrir um og bregðast við frekari breytingum.

Við gætum séð tegundir koma inn á svæðið sem þola breytingarnar betur. Það er viðbúið að tegundir úr Norðursjó færi sig norðar. Við viljum til dæmis skilja hvernig kísilþörungar, smáar örverur sem lifa með ljóstillífun hér úti í firði þróast. Sumar þeirra eru eitraðar, aðrar ekki. Síðan lifa á þeim sníkjudýr sem haft geta áhrif á blómann. Það er mjög áhugavert fyrir sjávarútveginn ef blómi eitruðu tegundanna verður algengari. Síðan eru ýmsar tegundir sveppa, þörunga og baktería sem varla hafa verið kannaðar hér á norðurslóðum.“

Marco og Ichen við Blávík.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.