Finnbogi hættur hjá Austurbrú: Laun samræmdust ekki launastefnu

austurbru_logo.jpg
Finnbogi Alfreðsson, verkefnisstjóri nýsköpunar- og þróunar hjá Austurbrú, hefur látið af störfum. Launakjör hans samræmdust ekki launastefnu stjórnar félagsins.

Frá þessu er greint í Austurglugganum í dag. Þar segir að Finnbogi hafi verið ráðinn til félagsins af fyrrum framkvæmdastjóra til reynslu í ákveðinn tíma á kjörum sem „ekki fullnægðu viðmiðum né launastefnu stjórnar Austurbrúar.

Því var gerð sú krafa að loknum reynslutíma að hann færi á þau kjör sem samræmdust stefnu Austurbrúar og jafnframt að hann uppfyllti eina af auglýstum forsendum ráðningar þ.e. búsetu á Austurlandi.“

Meðal þeirra verka sem voru á borði Finnboga var Vaxtarsamningur Austurlands. Austurfrétt hefur rætt við umsækjendur sem eru afar óánægðir með hversu dregist hefur að svara umsóknum. Það hefur ekki enn verið gert en umsóknarfrestur rann út í byrjun september. Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur umsækjendum verið lofað svari í næstu viku.

Þá hefur óánægja umsækjenda einnig beinst að því sem þeir telja breyttar áherslur af hálfu Austurbrúar eftir að umsóknum var skilað miðað við það sem áður var auglýst. Þannig hafi sumir umsækjendur þegar fengið afsvar við óskum um styrki til markaðssetningar en þeim boðið að taka þátt í vinnustofu sem halda átti í desember.

Í afsvari segir að stefnt sé að því að því að senda út boð á vinnustofuna í byrjun mánaðarins. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hefur boðið ekki enn borist né vinnustofan verið haldin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar