Finnst ergilegt að sjá eftir öllum þessum skinnum ofan í jörðina

Karl Jóhannsson á Þrepi í Eiðaþinghá á Héraði rekur sútunarstöð skammt frá heimilinu sínu. Þar sútar hann hreindýraskinn á veturna og hefur gert um fjögurra ára skeið.

Aðeins tveir aðilar á Íslandi bjóða upp á þessa þjónustu og er Kalli á Þrepi, eins og hann er jafnan kallaður, annar þeirra. Hann segir sorglegt hversu mikið af skinnum er hent á hverju ári.

5-600 skinn grafin árlega

„Ég gæti trúað því að það séu fimm- til sexhundruð skinn grafin á Íslandi árlega. Mér finnst það alveg forkastanlegt að henda þessu. Þetta er það gott hráefni að það er synd að það skuli ekki vera nýtt meira. Þú sér það að ég hef verið að súta um 100 skinn á ári, og útgefin leyfi fyrir til dæmis næsta veiðitímabil erum 1400 dýr. Þetta er engin nýting,“ segir Kalli í samtali við Austurfrétt.

„Fyrst á hreindýratímabilinu eru skinnin ekki tilbúin í loðsútun því þá eru þau ekki búinn að missa sumarhárin, en þá er alveg tilvali að súta þau í leður. Mér finnst ergilegt að þurfa að sjá eftir öllum þessum fjöld ofan í jörðina,“ Bætir hann við.

Hvað viltu segja við þá veiðimenn sem eru að fara á veiðar í sumar og haust?

„Ég veit svo sem ekki hvað hægt er að segja við þá, það virðist ekki vera peningur í þessu, þeir fá ekkert fyrir skinnin sín og þar af leiðandi er ódýrast fyrir þá að henda þeim. Þetta er sorglegt því það er hægt að nýta skinnin í svo margt.“

Margir möguleikar

Eins og hvað? „Það er hægt að gera allskyns vörur úr þeim. Blessuð vertu ég er með fullt af hugmyndum. Ég er til dæmis að leika mér að gera glasamottur úr skinnunum sem verður afgangs af löppunum á hreindýrinu. Þær koma vel út, og þar er enginn motta eins, svo geri ég mottur fyrir staupin líka.“

Og á að fara í framleiðslu? „Það getur vel verið,“ segir Kalli og hlær.

En hvað með skinnin sem maður sér í túristabúðum. Eru þau frá þér? „Nei það eru ekki skinn frá mér í túristabúðum. Ég get ekki selt skinn á því verði sem þar eru í boði.

En ég hef trú á á því að þessi skinn séu innflutt og það sé búð að stimpla á þau „Made in Iceland“ og þau síðan seld á undirverði, og mér þykir það mjög lélegt að vera að selja túristum skinn sem eru ekki frá Íslandi.

Ég hef alveg verið að selja eitt og eitt skinn sjálfur, en það er enginn stórkostlegur markaður fyrir þetta, en það að keppa við innfluttar vörur, það er erfitt,“ segir Kalli að lokum.

Þátturinn Að Austan á N4 kíkti í heimsókn í sútunarstöðina til Kalla á dögunum og fékk að forvitnast um starfssemina. Sjáðu hvernig hann loðsútar skinn hér.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.